EN

Anna Þorvaldsdóttir: Illumine

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli fyrir tónsmíðar sínar á undanförnum árum og hafa verk hennar hljómað víða í flutningi úrvals hljómsveita eins og Fílharmóníusveitanna í Berlín, Stokkhólmi, Ósló, New York og Los Angeles. Anna lagði stund á tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi en hélt síðan til framhaldsnáms við Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum. Hún hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012 fyrir verk sitt Dreymi, sem var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2015 veitti Fílharmóníusveitin í New York henni Kravis-verðlaunin sem ætluð eru upprennandi tónskáldum og í fyrra hlaut hún tvenn verðlaun frá Lincoln Center: Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award.

Sem stendur er Anna staðartónskáld bæði í Royal Academy of Music í Lundúnum og hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún gegnir margþættu hlutverki í starfi hljómsveitarinnar, situr í verkefnavalsnefnd hennar og er í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.

Verkið Illumine er samið fyrir þrjár fiðlur, tvær víólur, tvö selló og kontrabassa. Það var skrifað fyrir Ensemble intercontemporain í París og frumflutt á hátíðartónleikum í tilefni af 40 ára afmæli sveitarinnar árið 2016. Anna segir um verkið að það byggist á hugmyndinni um togstreitu ljóss og myrkurs — leitinni sem kveikist af fyrstu ljósgeislunum og rytmanum sem framkallast af bylgjuhreyfingum ljóssins gegnum myrkrið: „Við leiðumst smám saman inn í skruðninga upphafsins, sem sundrast í frumeindir sínar, og leysumst síðan hægt út í algjöra stillu ljóssins. Það á við um Illumine eins og önnur verk mín, að kveikjan að því er ekki eitthvað sem ég reyni svo að lýsa í verkinu — fyrir mér er tónlistin fyrst og fremst til á sínum eigin forsendum. Þegar ég sæki innblástur til einhvers fyrirbæris eða eiginleika, þá er það vegna þess að það vekur áhuga minn tónlistarlega séð. Það sem inspírerar mig tengist oftar en ekki formgerð, t.d. hlutföllum eða flæði, eða þá jafnvægi milli eininga í stærri heild og hvernig má færa sjónarhornið milli þessara tveggja póla, eininganna og heildarinnar.“