EN

Anton Bruckner: Sinfónía nr. 2

Anton Bruckner (1824–1896) var um margt eitt af óvenjulegustu tónskáldum 19. aldar. Hann var fæddur í smáþorpi nærri Linz í Austurríki og hóf feril sinn sem organisti við Florian-klaustrið þar í grennd. Bruckner var þrjátíu og eins árs gamall þegar hann hóf tónsmíðanám og var kominn á fimmtugsaldur þegar hann fluttist til Vínarborgar. Þar hlotnaðist honum kennarastaða við Tónlistarháskólann árið 1868. Bruckner þótti sveitalegur í framkomu alla tíð og var þjakaður af minnimáttarkennd gagnvart eigin tónsmíðum, sem meðal annars birtist í linnulausum endurgerðum hans á verkum sínum. Þá var hann einlægur trúmaður á tímum þegar fleiri listamenn sóttu innblástur í persónulega reynslu en til æðri máttarvalda. Merki þess má heyra í flestum verka hans, ekki eingöngu þeim sem samin eru fyrir trúarleg tækifæri.

Síðari hluti 19. aldar einkenndist af árekstrum og illvígum deilum milli tveggja hópa tónlistarmanna – þeim sem aðhylltust „hreina“ eða „absólút“ tónlist annars vegar, og forvígismanna hinnar nýju framtíðartónlistar (Zukunftsmusik) hins vegar. Í fyrri hópnum var m.a. Johannes Brahms ásamt hinum áhrifamikla gagnrýnanda Eduard Hanslick, en Franz Liszt og Richard Wagner boðuðu nýja tíma með tónaljóðum sínum og óperum. Bruckner var ávallt skipað í hóp með Wagneristum enda þótt tónlist hans byggi að mörgu leyti á allt öðrum forsendum, til dæmis með því að nota hið hefðbundna sinfóníska form. Áhrifa Wagners gætir engu að síður víða enda dáði Bruckner hann öðrum mönnum fremur.

Bruckner lauk við sinfóníu nr. 2 árið 1872 og hún er tímamótaverk á ferli hans; hér fann hann bæði tónmál og form sem hentuðu hinum stórbrotnu hugmyndum hans. Ekki féll hún þó strax í kramið. Franz Liszt afþakkaði pent þegar Bruckner bauðst til að tileinka honum verkið, og þegar Richard Wagner fékk nótur að sinfóníum Bruckners nr. 2 og 3 valdi hann frekar að láta tileinka sér hina þriðju. Í dag er þessi sinfónía þó talin lykilverk á ferli Bruckners þótt hún hljómi sjaldnar en hún verðskuldar.

Árni Heimir Ingólfsson