EN

Anton Bruckner: Sinfónía nr. 3

Anton Bruckner (1824–1896) var um margt eitt af óvenjulegri tónskáldum 19. aldar, bæði hvað varðar persónugerð sína og listsköpun. Hann var fæddur í smáþorpi nærri Linz og hóf feril sinn sem organisti við Florian-klaustrið nærri Linz. Bruckner var þrjátíu og eins árs gamall þegar hann hóf tónsmíðanám og var kominn á fimmtugsaldur þegar hann fluttist til Vínarborgar sem vitaskuld var ein af miðstöðvum tónlistar í Evrópu. Þar tók hann við kennarastöðu við Tónlistarháskólann árið 1868. Bruckner þótti „sveitalegur“ í framkomu alla tíð og var þjakaður af minnimáttarkennd gagnvart eigin tónsmíðum, sem meðal annars birtist í linnulausum endurgerðum hans á verkum sínum. Þá var hann einlægur trúmaður á tímum þegar fleiri listamenn sóttu innblástur í persónulega reynslu en til æðri máttarvalda. Merki þess má heyra í flestum verka hans, ekki eingöngu þeim sem samin eru fyrir trúarleg tækifæri. 

Bruckner dáði einn samtímamann sinn öðrum fremur og sá hét Richard Wagner. Árið 1873 sendi Bruckner meistaranum nótur að sinfóníum sínum nr. 2 og 3 með þeim skilaboðum að sig langaði til að tileinka honum aðra hvora, þá sem honum litist betur á. Næsta dag mannaði hann sig upp í að heimsækja Wagner í Bayreuth og fá svarið augliti til auglitis. Wagner var kuldalegur og stífur til að byrja með en varð vingjarnlegri eftir því sem á leið. Þegar upp var staðið höfðu þeir félagarnir teygað saman allnokkra bjóra og voru orðnir mestu mátar. Þegar Bruckner kom heim gat hann þó ómögulega munað hvora sinfóníuna Wagner hafði valið, þannig að hann sá sig tilneyddan til að senda vandræðalegt skeyti: „Var það sinfónían í d-moll, þar sem trompetar leika upphafsstefið?“ Wagner svaraði um hæl, kannski búinn að fá sig fullsaddan af brölti aðdáandans: „Já, já! Bestu kveðjur, Richard Wagner.“

Illa gekk að fá sinfóníuna flutta. Fílharmóníusveit Vínarborgar afþakkaði eftir að hafa lesið í gegnum verkið haustið 1875. Tvö ár liðu til viðbótar þar til sú þriðja heyrðist fyrst á tónleikum undir stjórn Bruckners sjálfs, við afleitar viðtökur. Bruckner var sæmilegur kórstjóri en hafði lítið vald á hljómsveitum. Vínarbúar höfðu heldur enga þolinmæði gagnvart hinum löngu og viðamiklu hljómkviðum hans og margir gengu úr salnum meðan á verkinu stóð; raunar segir sagan að ekki hafi nema um 25 manns verið í salnum þegar verkinu lauk. Einn þeirra sem sat sem fastast var efnilegur táningur að nafni Gustav Mahler, sem útsetti sinfóníuna fyrir tvö píanó skömmu síðar.

Slæmar viðtökur um árabil grófu undan sjálfstraustinu og sárin greru seint. Bruckner var þjakaður af minnimáttarkennd og viðnám hans var lítið þegar nemendur hans og samstarfsmenn lögðu til margvíslegar breytingar á verkum hans, ekki síst styttingar. Stundum samþykkti hann breytingarnar möglunarlaust, í öðrum tilvikum voru þær gerðar án hans vitundar. Síðasta áratuginn sem Bruckner lifði tók hann sjálfur fullan þátt í „lagfæringamaníunni“, eins og þessi furðulega árátta höfundarins hefur verið kölluð. Afleiðing þessa er að í flestum tilvikum eru til margar ólíkar útgáfur af sinfóníum Bruckners og fræðimenn 20. aldar höfðu ærinn starfa við að greiða úr flækjunni. Alls eru til fimm ólíkar gerðir þriðju sinfóníunnar, frá 1873, 1874, 1876, 1878 og 1889. Styttingarnar urðu sífellt meiri eftir því sem árin liðu; frumgerðin er samtals 2056 taktar en í lokagerðinni er verkið ekki nema 1644 taktar. Á tónleikunum í kvöld er einmitt flutt lokagerðin frá árinu 1889. 

Tónlistin er um margt dæmigerð fyrir hin sinfónísku verk Bruckners. Hann málar á stóran striga í tónlistinni og staðnæmist oft á einum hljómi lengi í senn, svo úr verða „hljómflekar“ þar sem hreyfingin er öll á yfirborðinu, einn og sami hljómurinn iðar af innra lífi en er ekki knúinn áfram á hinn næsta. Að þessu leyti má jafnvel greina eins konar naumhyggju eða mínímalisma í nálgun Bruckners. Sinfóníur hans eru oft kallaðar „dómkirkjur í tónum“ sem vísar til þess að þær eru stórar í sniðum og að inntak þeirra er mikilfenglegt og djúpt. Þær eru eitt margra dæma um það hvernig veraldlegt tónlistarlíf 19. aldar fékk á sig trúarlegt yfirbragð, og gildir það bæði um verkin sjálf og tónleikana þar sem þau hljómuðu.

Fyrsti þáttur sinfóníunnar er kraftmikill og ljóðrænn til skiptis; hægi kaflinn er sveipaður dulúð og trega. Þar má meðal annars greina tilvísun í „svefn-mótífið“ úr Valkyrjunni eftir Wagner; í fyrri gerðum sinfóníunnar voru enn fleiri vísanir í Wagner sem síðan fengu að fjúka. Þriðji þátturinn er líflegur en með hægari miðkafla, í ætt við austurríska sveitadansinn Ländler. Lokakaflinn tekur upp þráð þess fyrsta og málmblásturshópurinn fær sannarlega að njóta sín til fulls. Að endingu skiptir Bruckner yfir í bjartan og mikilfenglegan dúr og fer þannig sömu leið og Beethoven í Níundu sinfóníu sinni hálfri öld fyrr: ljósið hefur sigrast á myrkrinu, hetjan rutt sér leið gegnum þrengingar og öðlast fullnaðarsigur.