EN

Antonio Vivaldi: Konsert fyrir tvö selló

Eftir Antonio Vivaldi (1678–1741) hafa varðveist um fimm hundruð konsertar og með þeim lagði hann fram skerf sem jafna má við framlag Monteverdis í óperusmíðum eða Haydns í sinfóníugerð. Vivaldi var Feneyingur í húð og hár og hann átti ekki langt að sækja hæfileikana því að faðir hans var fiðluleikari við Markúsarkirkjuna. Þó hugðist sonurinn upphaflega taka aðra stefnu í lífinu og vígðist prestur – í samtímaskjölum er hann stundum auknefndur il prete rosso, „rauðhærði presturinn“. Þau áform lagði hann á hilluna á þrítugsaldri vegna sjúkleika í lungum.

Tólf fiðlukonsertar Vivaldis op. 3, L’estro armonico (Seiðmagn hljómanna, 1711), hafa verið sagðir „það safn hljóðfæraverka sem hafði mest áhrif á gjörvallri 18. öld“. Eitt af síðari söfnum hans naut þó jafnvel enn meiri hylli hjá hlustendum bæði þá og nú: Il cimento dell’armonia e dell’ inventione (Þolraun hljóma og hugvits, 1725) op. 8. Fyrstu fjórir konsertarnir í því safni eru lýsingar á árstíðunum, Le quattro stagioni, fyrir einleiksfiðlu og hljómsveit. Þetta er það sem síðar var nefnt hermitónlist – músík sem lýsir ákveðnum atburði, stund eða stað, og til að hlustandinn njóti hennar til fullnustu þarf hann að skilja um hvað tónlistin snýst. Í Vorinu má til dæmis heyra fuglasöng, hundgá og fjörlega sveitadansa, en Sumarið ber með sér hávaðasamt þrumuveður sem gefið er í skyn með ofsafengnum tónarunum.

Þótt Vivaldi hafi verið firnagóður fiðluleikari samdi hann flesta konserta sína ekki með sjálfan sig í huga, heldur fyrir munaðarlausar stúlkur. Í Feneyjum voru starfræktir fjórir ospedali, stofnanir sem veittu börnum sem áttu engan að ókeypis kennslu og húsaskjól. Ospedale della Pietà átti rætur að rekja allt til ársins 1346 og á dögum Vivaldis voru þar um þúsund stúlkur við nám. Margar þeirra fengu fyrirtaks tónlistarkennslu, sungu í kór eða léku á hljóðfæri. Með slíka hæfileika voru auknar líkur á því að þær næðu sér í gott mannsefni en tónlistarnámið var líka góð fjárfesting fyrir skólann. Í hverri viku var slegið upp tónleikum og með því móti aflað tekna til starfseminnar. Feneyjar voru helsta ferðamannaborg Evrópu á 18. öld og tónleikar í Pietà voru ofarlega á lista hvers ferðamanns. Hljómsveitin var ein sú besta í álfunni ef marka má frásagnir samtímamanna. Franski baróninn Charles de Brosses sagði að hún skákaði jafnvel þeirri við Parísaróperuna og var þá mikið sagt.

Vivaldi starfaði við Pietà frá 1703 til 1740, með hléum þó. Þar kenndi hann hljóðfæraleik, hafði umsjón með hljóðfærakosti skólans og samdi ný tónverk til flutnings, meðal annars megnið af konsertum sínum. Langflestir þeirra eru fyrir fiðlu en þó léku stúlkurnar á ýmis hljóðfæri og því samdi Vivaldi einnig konserta fyrir til dæmis fagott, blokkflautu og mandólín. Konsertformið hentaði aðstæðum vel því að færustu nemendurnir gátu spreytt sig sem sólistar á meðan skemmra komnir skipuðu hljómsveitina. Það kæmi nútímagesti spánskt fyrir sjónir að í Pietà spiluðu stúlkurnar og sungu bak við stóran skerm. Það þótti handan við öll velsæmismörk að ógiftar konur sæjust meðhöndla hljóðfæri í guðshúsi, nunnur sáust heldur ekki þegar þær sungu í klaustrum sínum.

Tónlist Vivaldis er í senn lagræn og tilþrifamikil. Hljómagrindin er oft í einfaldara lagi en spennan er sótt í aðra þætti tónlistarinnar: hröð hlaup, stór stökk og rytmísk orka, allt þetta knýr tónlistina áfram. Vivaldi lætur sér oft nægja að beina athygli að einni rödd í einu, hann beitir með öðrum orðum fremur sjaldan kontrapunkti í verkum sínum. Að þessu leyti er hann einn fyrsti boðberi galant-stílsins svonefnda sem síðar átti eftir að velta barokktónlistinni úr sessi.

Konsertinn í g-moll fyrir tvö selló er hinn eini sem Vivaldi samdi fyrir þessa samsetningu hljóðfæra. Líklegt er talið að verkið hafi orðið til fyrir Pietà um eða upp úr 1720, og það hefur um langa hríð verið meðal þeirra vinsælustu úr smiðju Vivaldis ef Árstíðirnar fjórar eru undanskildar.

Árni Heimir Ingólfsson