EN

Antonio Vivaldi: Sumarið, 3. kafli, Presto

Feneyingurinn Antonio Vivaldi (1678-1741) var eitt mikilvirkasta og áhrifamesta tónskáld barokktímabilsins á Ítalíu og setti mark sitt meðal annars á þróun konsertformsins með hátt í 500 einleikskonsertum þar sem samtal og samspil einleikara og hljómsveitar taka á sig margvíslegar myndir. Fiðlukonsertarnir fjórir sem kenndir eru við árstíðirnar eru án efa frægustu verk Vivaldis í dag, en þau gleymdust að mestu eftir dauða tónskáldsins og lágu nánast óhreyfð þangað til þau tóku að hljóma aftur á tónleikapalli um miðja tuttugustu öld. Verkin voru samin milli 1716 og 1725 og voru um margt byltingarkennd á sinni tíð, einkum fyrir það hvernig þeim var ætlað að draga fram náttúrufyrirbrigðum í tónum af mikilli nákvæmni. Sérhver konsertanna fjögurra er byggður á ljóði, sonnettu þar sem veðurfari og árstíðabundnum atburðum er lýst á myndrænan hátt. Í Sumrinu ríkir framan af sólskin, hiti og fuglasöngur - en í lokakaflanum sem hér hljómar brestur á með þrumuveðri, ausandi rigningu og hagléli sem steypist yfir akurinn, ungum fjárhirði til hrellingar. Við flutning þessa kafla er farið að venjum barokktímans og leikið án sérstaks hljómsveitarstjóra, enda hljómsveitin hófleg að stærð og samspilið milli einleikara og hljómsveitar náið.