EN

Arnold Schönberg: Verklärte Nacht (Uppljómuð nótt)

Hinn mikli hörgabrjótur og forvígismaður módernismans í vestrænni tónlist, Arnold Schönberg (1874-1951), fann oft fyrir því á löngum ferli að almennir áheyrendur fylgdu honum ekki að málum. Eftir því sem árin liðu lét hann sér þetta í léttu rúmi liggja, að minnsta kosti ef marka má ummæli hans til vina og kunningja. „Ég hef verið beðinn um að segja eitthvað um áheyrendur mína,“ skrifar hann á einum stað. „Ég verð
að viðurkenna að ég held ég eigi mér enga.“ Það var svo sem ekki við öðru að búast en að vanafastir tónleikagestir firrtust við þegar grunnstoðir vestrænnar tónlistar, tóntegundakerfið, riðuðu til falls – eða umbreyttust, svo notað sér orð sem tengist verki kvöldsins – í hið svokallaða 12-tóna kerfi þar sem sérhverjum tóni krómatíska tónstigans er gert jafnhátt undir höfði. En þegar með tónaljóðinu Verklärte Nacht (1899), sem samið var talsverðu áður en þessi umskipti áttu sér stað og einkennist öðru fremur af síðrómantískri mýkt og tjáningu tókst Schönberg að valda hneykslun bæði áheyrenda og annarra tónskálda - jafnt fyrir tónlistina og hispurslaus efnistökin.

Arnold Schönberg ólst upp á menningarheimili og kynntist tónlist ungur að árum, en var að mestu sjálfmenntaður frá15 ára aldri. Þá hafði sviplegt andlát föður hans orðið til þess að hann varð að hætta skólagöngu og taka að sér starf í banka til að framfleyta fjölskyldunni. Forvitni hans og áhugi á tónlist var þó óslökkvandi og í gegnum áhugamannafélag um tónlist kynntist hann virtu tónskáldi í Vínarborg, Alexander von Zemlinsky, sem var aðeins þremur árum eldri en Schönberg en varð eini eiginlegi tónsmíðakennari hans um ævina. Það var Zemlinsky sem kynnti Schönberg fyrir tónlist Richards Wagners og Richards Strauss, sem þegar höfðu látið reyna ærlega á þanþol tóntegundakerfisins í verkum sínum. Áður hafði Jóhannes Brahms verið helsta fyrirmynd hins unga Schönbergs. Áhrif allra þessara tónskálda er að finna í Verklärte Nacht: Það býr yfir merkingarþrungnum leiðarstefjum og ævintýragjörnum hljómferlum í anda Wagners og Strauss en fíngerður samspilsvefnaðurinn heldur tryggð við handbragð Brahms.

Verklärte Nacht byggir á samnefndu ljóði þýska skáldsins Richards Dehmel (1863-1920) og er upphaflega samið fyrir strengjasextett, en útsett fyrir strengjasveit 1917 og endurbætt 1943. Ljóð Dehmels segir af elskendum á skógargöngu að næturlagi. Stúlkan játar fyrir piltinum að hún beri barn undir belti sem getið hafi verið áður en hún kynntist honum. Hún hafi látið til leiðast af þrá eftir því að verða móðir en sé nú full örvæntingar og eftirsjár. Pilturinn huggar hana, bendir henni á hvernig himingeimurinn baðar þau ljóma sínum og fullvissar hana um að ást þeirra muni umbreyta hinu ófædda lífi og gera að barni þeirra beggja. Nóttin er uppljómuð og þau ganga áfram inn í tunglskinið. Umskiptin endurspeglast í tónlistinni, þar sem drungalegur hljómur upphafstaktanna er nú orðinn að skínandi björtum dúr.

Umbreytingarafl ástarinnar kann að hafa verið Schönberg sérstaklega hugstætt á þessum tíma þar sem hann hafði sjálfur nýlega orðið ástfanginn af Mathilde, systur Alexanders von Zemlinskys, og áttu þau eftir að ganga í hjónaband. Í öllu falli lét innblásturinn ekki á sér standa, hann samdi verkið í upphaflegri gerð fyrir strengjasextett á aðeins þremur vikum. Sem áður sagði olli hin frjálslynda afstaða til kynferðismála í efnistökum ljóðsins djúpri hneykslun í hinni íhaldssömu Vínarborg, en skáldið Dehmel var í þrígang dreginn fyrir dóm vegna kláms og guðlasts. Tónlistin sjálf þótti þó ekki síður hneykslanleg, seiðandi munúðarfull og nánast óviðurkvæmilega torskilin í senn. Hvorugt virðist angra tónleikagesti samtímans, enda er Verklärte Nacht langvinsælasta verk Schönbergs í tónleikasölum heimsins og gætir áhrifa þess víða – bæði í heimi klassíkur og framsækinnar popptónlistar.