EN

Áskell Másson: Capriccio

Capriccio er konsert fyrir darabúku og sinfóníuhljómsveit og í einleikshlutverki er tónskáldið sjálft. Áskell hefur náð meistaralegum tökum á darabúku og þróað sína eigin tækni á þetta heillandi hljóðfæri sem á uppruna sinn í Tyrklandi og Austurlöndum nær. Tækni Áskels tekur þó fremur mið af vestrænni tónhugsun, hljóðheimi og venjum fremur en þeirri austrænu sem hljóðfærið sprettur upp úr. Áskell hefur samið fjölmörg verk fyrir darabúku og alls kyns hljóðfærasamsetningar en hér er um fyrsta konsertinn að ræða.

Eins og titillinn gefur til kynna er yfirbragð verksins létt og leikandi. Heitið Capriccio hefur í aldanna rás verið notað um tónverk sem eru lífleg, yfirleitt stutt og oft virtúósísk. Hér fær darabúkan að láta ljós sitt skína í öllum sínum margbreytileika en ein af kveikjum verksins er að sögn Áskels í raun að kynna hljóðfærið og möguleika þess fyrir hlustendum. Konsertar fyrir darabúku og sinfóníuhljómsveit eru svo sannarlega ekki á hverju strái og að öllum líkindum er þetta verk hið eina sinnar tegundar í heiminum. Með darabúkunni eru þrjú lagræn hljóðfæri í burðarhlutverkum; fiðlu-, selló- og klarínettleikarar eru nokkurs konar meðeinleikarar, sem leiðir hugann að vinsælu konsertaformi barokktímans, concerto grosso, þar sem lítill hljóðfærahópur gegndi hlutverkum einleikara.

Darabúkan sem hér er leikið á var sérsmíðuð fyrir Áskel í Jerúsalem, búkurinn úr níðþungu steypuefni og skinnið úr grófu fiskiroði. Spilatækni darabúkuleikara er almennt á þá leið að hljóðfæraleikarinn heldur á trommunni undir hendinni, hér situr einleikarinn hins vegar á uppháum kontrabassastól við darabúkuna sem hefur verið komið fyrir á statífi. Með því móti eru allir tíu fingur einleikarans frjálsir til að kalla fram hljóðvefinn en hljóðfæratæknin, sem Áskell hefur þróað, snýst um að spila fyrst og fremst með fingrunum á darabúkuna fremur en að slá á hana eins og yfirleitt tíðkast.

Í glæsilegri einleikskadensu sem hljómar eftir miðbik verksins má vel heyra þann litríka hljóðheim sem tíu fingur ná að galdra fram úr einni trommu; eftir kadensuna skiptir einleikarinn um hljóðfæri og leikur á tyrkneska darabúku, smærri og með plastskinn þar sem hvert einasta smáatriði heyrist. Jafnframt má nefna að í verkinu hljómar hið sjaldgæfa hljómborðshljóðfæri alúfónn sem leikið verður á af slagverksleikurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Alúfónn er sambærilegt við marimbu og sílófón, en nýrra af nálinni og er búið til úr sérstökum álkeilum sem gerir að verkum að tónninn er opinn og langlífur.

TÓNLISTIN Á ÍSLANDI
Capriccio var upphaflega frumflutt árið 2017 í Hofi á Akureyri af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn Petri Sakari en hljómar á þessum tónleikum í glænýrri og endurskoðaðri mynd og er því um heimsfrumflutning þeirrar gerðar verksins að ræða.