EN

Atli Heimir Sveinsson: Hjakk

Atli Heimir Sveinsson samdi verkið Hjakk árið 1967 en endurskoðaði það árið 1979. Í kjölfarið var verkið flutt í Svíþjóð og tileinkaði Atli það Göran Bergendal og fjölskyldu hans. Óhætt er að segja að Hjakk sé eitt af lykilverkum á ferli tónskáldsins. Það vakti mikla athygli við frumflutning eins og flest verk Atla gerðu reyndar, ekki síst á sjöunda og áttunda áratugnum. Í verkinu er slagverkið fyrirferðarmikið og allt um lykjandi, enda vísar nafnið til taktsins sem gengur í gegnum verkið allt, ákafur og knýjandi.

„Þar er hjakkað af bráðskemmtilegri hugkvæmni í ætt við sverðdansa og svoleiðis, eða verksmiðju­ og virkjanamúsík frá dögum Leníns & co.“, ritaði Leifur Þórarinsson í blaðadómi. Ákafur og knýjandi taktur gengur gegnum verkið allt, og rúmum 50 árum síðar er verkið enn hressandi, ferskt og ögrandi eins og tónlist Atla er svo oft.

Í raddskrá skrifaði Atli Heimir um verkið:

Er þetta fallegt tónverk? Mun það gera önnur tónverk fegurri? Verða öll önnur hljóð fegurri eftir að maður hefur heyrt þetta verk?

 

Hjakk var frumflutt í sinni upprunalegu gerð í hljóðritun sem Sinfóníuhljómsveit Íslands gerði undir stjórn Páls P. Pálssonar árið 1978. Fílharmóníusveitin í Stokkhólmi flutti endurskoðaða gerð verksins árið 1981. Hjakk hefur aðeins einu sinni áður hljómað á opinberum tónleikum á Íslandi, í flutningi Sinfóníuhljómsveitarinnar í febrúar 1986 og stjórnaði Jean- Pierre Jacquillat verkinu. Það hljómaði svo aftur á þrennum skólatónleikum Sinfóníunnar árið 1998 og þá hélt Bernharður Wilkinson um tónsprotann. Hjakk var einnig flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum 2020.