EN

Bára Gísladóttir: ÓS

Bára Gísladóttir er bæði tónskáld og kontrabassaleikari og einstaklega áhugavert hefur verið að fylgjast með tónsköpun hennar undanfarin ár. Tónlist hennar hefur verið flutt af fjölmörgum tónlistarhópum og hljómsveitum, íslenskum jafnt sem alþjóðlegum. Má þar t.d. nefna íslensku hópana Nordic Affect, Elektra Ensemble, Strokkvartettinn Sigga og Duo Harpverk. Bára lauk BA­-prófi á Íslandi, meistaraprófi á Ítalíu og stundaði framhaldsnám í Danmörku þar sem hún hefur nú aðsetur. Hún hefur starfar með ýmsum tónlistarhópum og er meðlimur Elju Ensemble. Bára hefur gefið út nokkrar mjög áhugaverðar plötur, og hefur sjálf leikið á kontrabassa á þeim öllum. Bára hlaut hin virtu Léonie Sonning­-verðlaun í Danmörku árið 2018 og árið 2019 féllu Carl Nielsen hæfileikaverðlaunin henni í skaut.

ÓS var pantað af Reykjavíkurborg og Sinfóníuhljómsveit Íslands í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og frumflutt í Eldborg 1. desember 2018 á tónleikum í því samhengi.

Í verkinu tekst hún á við hin ýmsu blæbrigði orðsins óss. Helsta merking þess er vitanlega ármynni, þar sem flæðandi vatn rennur saman við hafið og ferskt vatn og salt blandast.

Bára er þekkt fyrir að nýta sér hljóðfæri á margvíslegan hátt og mjög fjölbreytilega tónmyndun. Þetta verk er þar engin undantekning. Hér má til dæmis heyra leikið á blásturhljófærin ýmist án munnstykkja eða þeim er snúið öfugt og þau mynda hljóðláta bylgju sem gengur í gegnum allt verkið.