EN

Beethoven: Egmont, forleikur

Eins og kunnugt er átti Ludwig van Beethoven (1770–1827) ekki farsælan feril sem óperutónskáld. Eina verk hans af þeirri gerð, Leónóra/Fídelíó (1805/1814), náði aldrei þeim vinsældum sem hann vonaðist eftir. Þar kom raunar margt til, meðal annars innrás franska hersins í Vínarborg skömmu fyrir frumsýningu, en í raun var Beethoven ekki óperumaður af lífi og sál. Með vaxandi heyrnarleysi átti hann örðugt með þau mannlegu samskipti sem þarf til að skapa verk þar sem ólíkar listgreinar renna saman í eina heild. Auk þess var hann þess megnugur að gæða hljóðfæratónlist dramatískara inntaki en áður hafði þekkst og þurfti í raun ekki á óperusviðinu að halda.

Þó fékkst Beethoven af og til við leikhústónlist og þá hreifst hann gjarnan af verkum sem fjölluðu um hetjur sem glíma við örlög sín. Það á til dæmis við um bæði Coriolanus, sem er leikrit eftir H. J. von Collin, og Egmont eftir Johann Wolfgang von Goethe. Egmont-forleikinn samdi Beethoven á árunum 1809–10 sem hluta af viðameiri leikhúsmúsík fyrir uppfærslu hirðleikhússins í Vínarborg. Goethe orti leikritið 1786 og naut það mikilla vinsælda enda yrkisefnið, frelsi og jafnrétti, ofarlega í huga manna á byltingartímum. Raunar á söguþráðurinn ýmislegt sameiginlegt með sögunni af Leónóru og Fídelíó sem heillaði Beethoven svo mjög. Leikurinn gerist á Niðurlöndum á 16. öld. Hetjan Egmont greifi leiðir Flæmingja í uppreisn gegn spænska einveldinu en er handsamaður og kastað í dýflissuna. Unnusta hans, Clärchen, reynir að bjarga honum en mistekst. Að lokum er Egmont kallaður til aftöku og gengur þangað hnarreistur í þeirri vissu að réttlætið muni sigra að lokum.

Leikhústónlist Beethovens samanstendur af forleik og níu öðrum númerum, m.a. tveimur söngvum fyrir Clärchen og glæsilegri „sigursinfóníu“ í lokin. Forleikurinn setur stemninguna fyrir það sem á eftir kemur og er í raun svipmynd af því sem í vændum er. Það voru sögur af þessum toga – um átök og örlög, hetjur og hugsjónir – sem Beethoven fórst vel að tjá í tónlist sinni. Þungt og örlagaþrungið upphafið er í f-moll, sömu tóntegund og Appassionata-píanósónatan og fangelsissenan í Fídelíó. Í kjölfarið fylgir hraður kafli með stefjum sem eru þrungin eldmóði. Í niðurlaginu heyrist tónlist sem gefur til kynna aftöku hetjunnar, með miklum andstæðum í styrk og áferð, en því næst hljómar sigurtónlistin sem leikritinu lýkur á, og vex hratt upp í kröftugt og afgerandi fortissimo