EN

Beethoven: Egmont, forleikur

Þýska tónskáldið Ludwig van Beethoven fæddist í Bonn árið 1770 en við vitum ekki nákvæmlega hvenær. Af lestri kirkjubóka má sjá að hann var skírður 17. desember það ár og samkvæmt hefð voru börn á þessu landssvæði borin til skírnar degi eftir fæðingu. Þetta (auk nokkurra fleiri atriða) hefur orðið til þess að flestir fræðimenn hafa sammælst um að Beethoven hafi fæðst hinn 16. desember 1770.

Engum blöðum er um það að fletta að Beethoven er í hópi frægustu tónskálda veraldar. Það kom í hans hlut að brúa bilið milli klassíska tímabilsins í tónlistarsögunni og þess rómantíska og hann hafði gríðarleg áhrif á sporgöngumenn sína. Fyrsta sinfónían sem hann samdi er til að mynda háklassísk en við erum strax farin að heyra áður óþekktar ómstríður í 3. sinfóníunni. Frægustu verk hans eru hverju mannsbarni kunn og nægir þar að nefna upphafsstefið úr 5. sinfóníunni, Für Elise og aðalstefið úr 4. kafla 9. sinfóníunnar, Óðnum til gleðinnar. Þá má einnig tilgreina Allegretto (2. kaflann) úr 7. sinfóníunni. Brot úr þessum verkum geta allir raulað, hvort sem þeir hafa áhuga á klassískri tónlist eða ekki.

Þýska skáldið Johann Wolfgang von Goethe var í miklu uppáhaldi hjá Beethoven en hirðleikhúsið í Vínarborg fór þess á leit við hann árið 1809 að hann semdi tónlist við uppfærslu á harmleik Goethes, Egmont. Atburðir hans eiga sér stað í Niðurlöndum á seinni hluta 16. aldar og fjallar um örlög Egmonts greifa sem leiðir landa sína í uppreisn gegn yfirráðum Spánverja en týnir lífi sjálfur. Tónskáldið sjálft átti rætur að rekja til Niðurlanda en efnið höfðaði þó ekki hvað síst til hans sökum pólitísks ástands í samtímanum. Frakkar sátu um Vínarborg og Beethoven, sem fyrr hafði hrifist af byltingaranda Napóleons, sá nú keisarann í öðru ljósi. Hann áleit því Egmont fyrst og fremst frelsishetju.

Forleikurinn er sá hluti þessarar leikhústónlistar sem er langmest fluttur og hefur hann til að mynda stundum tengst pólitískum átökum og frelsisbaráttu. Hér má nefna uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956, en forleikurinn var nokkurs konar einkennistónlist hennar. Forleikurinn minnir á stutt tónaljóð sem endurspeglar kjarnann í verki Goethes: kúgun Spánverja, hetjuskap Egmonts og uppreisnaranda. Skyndileg þögn skömmu fyrir lokin táknar dauða hetjunnar áður en forleiknum lýkur á innblásinni sigurtónlist.

Tónlistin á Íslandi:

Forleikurinn að Egmont hefur margoft hljómað á Íslandi. Hann hljómaði raunar á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í Austurbæjarbíói í mars 1950, undir stjórn Róberts Abraham Ottóssonar. Það hljómaði síðast á áskriftartónleikum árið 2019 undir stjórn Karinu Canellakis.