EN

Beethoven: Fiðlukonsert

Fiðlukonsert Ludwigs van Beethoven (1770–1827), sá eini frá hans hendi, varð til á miklu blómaskeiði tónskáldsins. Á áratugnum milli 1802 og 1812 samdi Beethoven meðal annars sex af sínum níu sinfóníum, þríleikskonsertinn, píanókonsertana nr. 4 og 5, og óperuna Fidelio, auk fiðlukonsertsins, sem saminn var að beiðni fiðluleikarans Franz Clement og frumfluttur af honum í Schauspielhaus í Vín á Þorláksmessu 1806. Beethoven lauk ekki við að hreinrita nóturnar fyrr en fáeinum dögum áður og sagan segir að Clement hafi nánast lesið konsertinn beint af blaði. Það kom þó greinilega ekki að sök — ef satt er. Verkinu var vel tekið við frumflutninginn en næstu áratugi heyrðist það þó sjaldan á tónleikum; ef til vill vegna þess að það er ekki fyrst og fremst hugsað sem flugeldasýning einleikarans, eins og mjög var títt, þótt það geri til hans miklar kröfur. Konsertinn komst aftur kirfilega á dagskrá þegar undrabarnið Joseph Joachim, þá tólf ára, flutti hann á tónleikum í Lundúnum árið 1844 undir stjórn Felix Mendelssohn og hefur hann allar götur síðan verið talinn einn glæsilegasti fiðlukonsert nítjándu aldar.

 Konsertinn er alllangur og munar þar mest um fyrsta þáttinn sem tekur yfirleitt ríflega 20 mínútur í flutningi. Hann hefst á því að pákurnar leika mótíf sem minnir á mars og segja má að sé undirlag þáttarins — það á eftir að hljóma í ýmsum hljóðfærum. Ofan á það byggir Beethoven tvö yndisleg stef sem tréblásturshljóðfærin kynna fyrst en strengir taka svo við. Einleiksfiðlan kemur inn á látlausan hátt og tekur til við að leika stefin, útvíkka þau og skreyta. Í úrvinnslunni færumst við yfir í molltóntegundir en síðan ítrekar hljómsveitin fyrra stefið, einleikarinn slæst í hópinn og leikur svo kadensu áður en síðara stefið er ítrekað og þættinum lýkur. Hinn draumkenndi hægi þáttur samanstendur af tilbrigðum við stef. Strengirnir kynna stefið fyrst blíðlega áður en blásarar byrja að leika tilbrigði sem einleiksfiðlan skreytir óviðjafnanlega, þróar áfram og leiðir að lokum yfir í lokaþáttinn, fjörlegt rondó.