EN

Beethoven: Sinfónía nr. 5

Örlagasinfónían

„Þannig knýja örlögin dyra,“ á Ludwig van Beethoven (1770–1827) að hafa sagt um upphaf fimmtu sinfóníu sinnar. „Örlagasinfónían“ svokallaða er kunn um allan heim og langt út fyrir landamæri klassískrar tónlistar, ekki síst tríólurytmi upphafstaktanna – ta-ta-ta-TA – sem hvert mannsbarn þekkir og skynjar sem enduróm óvæntra örlaga, dómsdag í tónum. En fyrir Beethoven og samtímamönnum hans var fimmta sinfónían allt annað en ofspilaður stríðsjálkur. Hún var þvert á móti nýstárleg og jafnvel ögrandi tilraun sem heppnaðist með þvílíkum ágætum að hún hafði áhrif á allt það sem tónskáldið samdi í kjölfarið. Beethoven býður hlustendum með sér í ferðalag í tónum; hann stendur frammi fyrir vandamálum sem þarfnast úrlausnar. Tónlistin hefst í kvíðafullum og ógnvænlegum moll en þægilegri tilvera er rétt handan við hornið. Það er stundum kallað „per aspera ad astra“, ferðalagið sem Beethoven býður okkur í: „gegnum kargaþýfið til stjarnanna“, úr moll í dúr. Sú saga sem Beethoven segir hér í fyrsta sinn hefur síðan verið sögð á margvíslegan hátt í mörgum helstu sinfóníum 19. og 20. aldar; sinfónía nr. 1 eftir Brahms og sinfóníur nr. 2 og 5 eftir Mahler eru meðal þeirra kunnustu.

            Elstu drög að fimmtu sinfóníunni eru frá því árið 1804, þegar Beethoven hafði nýlokið við þriðju sinfóníu sína. Honum sóttist verkið hægt og lagði það frá sér hvað eftir annað til að fást við önnur verkefni, til dæmis fjórða píanókonsertinn, fjórðu sinfóníuna og fiðlukonsertinn. Megnið af verkinu samdi hann 1807 og það var frumflutt á sögufrægum tónleikum í Theater an der Wien 22. desember 1808. Þetta var hálfgert músíkmaraþon: auk þeirrar fimmtu var sjötta sinfónían einnig flutt í fyrsta sinn, sem og fjórði píanókonsertinn, kórfantasían op. 80 og þrír þættir úr C-dúr messunni op. 86. Verkinu var ekki sérlega vel tekið í fyrstu. Hljómsveitaræfingar höfðu verið með minnsta móti svo flutningnum sjálfum var sennilega nokkuð ábótavant, og auk þess voru þrír klukkutímar af nýrri og kröfuharðri tónlist nokkuð stór skammtur jafnvel fyrir dygga aðdáendur meistarans. Til að kóróna allt bilaði hitakerfið í leikhúsinu, svo að sennilega hefur það verið nístandi kuldinn sem sat eftir í minningu tónleikagesta fremur en sú hrífandi tónlist sem þarna hljómaði í fyrsta sinn.

Spennuþrungnir upphafstaktarnir gefa tóninn fyrir verkið allt. Í kjölfarið hljómar annað stef sem er blíðara og bjartara – það heyrist fyrst í fiðlum og síðan í tréblásurum – en þó heyrist örlagaþrunginn tríólurytminn einnig hér; hann leynist í sífellu bak við tjöldin og heldur spennunni gangandi frá fyrsta takti til hins síðasta. Annar þáttur sinfóníunnar er röð af tilbrigðum um tvö stef. Hið fyrra líður ljúflega áfram í lágfiðlum og sellóum, en hið seinna er fagnandi sigurmars með trompetum og pákum. Það sem vekur kannski fyrst og fremst athygli hins árvökula hlustanda er hversu brösuglega seinna stefinu gengur að ná fótfestu. Þótt það lofi vissulega góðu kemst stefið aldrei lengra en fjóra takta áður en óvissan nær yfirhöndinni og tónlistin leysist upp á augabragði. 

Þriðji þáttur í sinfóníum klassíska tímans var yfirleitt menúett, yfirvegaður og tignarlegur hirðdans, en Beethoven breytti útaf vananum og samdi hraðari kafla sem hann nefndi scherzo. Orðið merkir „brandari“ á ítölsku en í fimmtu sinfóníunni er engum hlátur í hug. Upphafsstefið er órólegt og kvíðafullt: ofurveik spurning í sellóum sem fær ekki nema óöruggt svar frá fiðlum. Enda er örlagastefið úr fyrsta þætti ekki lengi að láta á sér kræla, fyrst í hornum og síðan í hljómsveitinni allri: þrjár stuttar og ein löng. Miðhlutinn er fúgató, þar sem raddirnar koma inn með sama stefjaefni hver á eftir annarri, gamansamur og ákveðinn í senn. Að honum loknum hefst scherzóið á nýjan leik, og dramatískt crescendo þeytir okkur beint inn í fjórða og síðasta kaflann. Hér er loks komin sigurtónlistin sem við heyrðum ekki nema daufan ávæning af í öðrum kafla. Nú er bjartsýnin allsráðandi, og þótt drungalegur moll láti á sér kræla í örskotsstund um miðbik þáttarins tekst honum aldrei að ná undirtökunum. Sinfóníunni lýkur á fagnandi C-dúr hljómi sem er endurtekinn aftur og aftur (og aftur!). Beethoven er kominn til stjarnanna eins og hann ætlaði sér – og við með honum.