EN

Beethoven: Sinfónía nr. 7, Allegretto

Það er alkunna að samtímamenn Beethovens áttu oft í erfiðleikum með að botna í tónlist hans, ekki síst þegar hann spreytti sig á hinum stærri formum. Þegar þriðja sinfónía hans, Eroica, var frumflutt árið 1805 skrifaði gagnrýnandi Allgemeine musikalische Zeitung að Beethoven ætti það til að „týnast í stjórnleysi“ og að margt í hinu nýja verki væri „hrikalegt og stórskrýtið“. En stundum hitti Beethoven beint í mark. Sjöunda sinfónían var fullgerð í apríl 1812, og við frumflutninginn í hátíðarsal háskólans í Vínarborg í desember 1813 ætlaði allt um koll að keyra. Vinsældir hennar næstu áratugina áttu sér enga hliðstæðu meðal sinfónía meistarans, og það komst upp í vana í tónleikasölum Evrópu að klappa upp annan þáttinn. Ekki leið á löngu þar til hægt var að kaupa tónlistina í útsetningum fyrir hina ýmsu hljóðfærahópa – septett, strengjakvartett, píanó, fjórhent píanó og tvö píanó, enda vissu broddborgarar nítjándu aldar fátt betra en að láta nýjustu sinfóníur hljóma í stássstofum sínum.

Sjöunda sinfónían er að ýmsu leyti einstök meðal sinfóníusmíða Beethovens. Í henni er til dæmis enginn hægur kafli. Jafnvel þótt Allegretto-kaflinn hafi um áratuga skeið verið leikinn í miklum hægagangi eru hljómsveitarstjórar nútímans nú almennt teknir að átta sig á því að hann er aðeins hægur í samanburði við það sem kemur á undan og eftir. Þessi kafli sinfóníunnar er eins konar tilbrigði þar sem skiptast á tvö stef, annað ábúðarfullt í moll sem vex í styrk í hvert sinn sem það heyrist, hitt blíðara í dúr, hnígandi og rísandi skalar þar sem klarínett og fagott eru í forgrunni. Ekki er auðvelt að benda á hvað í þessari tónlist hefur gert hana að einhverjum dáðasta sinfóníuþætti klassíska skeiðsins. Hvort sem það er síendurtekinn hrynurinn sem gefur meginstefinu sterkan og óumflýjanlegan blæ, þung undiralda hljómanna, eða eitthvað annað, má fullyrða að hér sé Beethoven í sínu besta formi enda hefur þessi tónlist einnig átt sína frægðardaga utan tónleikasalarins, meðal annars í kvikmyndum á borð við The King’s Speech og X-Men: Apocalypse