EN

Béla Bartók: Konsert fyrir hljómsveit

Vorið 1939 var Béla Bartók (1881–1945) orðið ljóst að Evrópa rambaði á barmi styrjaldar og að brátt kynni að reynast nauðsynlegt að halda á nýjar slóðir. Ári síðar hélt hann í tónleikaferð til Bandaríkjanna ásamt fiðluleikaranum Josef Szigeti, og þá tók hann að leggja drög að því að flytjast þangað um lengri eða skemmri tíma, að minnsta kosti þar til að friðvænlegra yrði um að lítast í Evrópu. Þann 29. október kom Bartók ásamt konu sinni, píanóleikaranum Dittu Pásztory, til hafnar í New York og þar var hann búsettur þau fimm ár sem hann átti eftir ólifuð.

Þeim gekk illa að koma ár sinni fyrir borð í stórborginni og Bandaríkjamenn reyndust með öllu áhugalausir um nýstárlegar tónsmíðar Bartóks. Fyrsta árið gátu þau drýgt tekjurnar með því að koma fram á píanótónleikum – ólíkt flestum starfsbræðrum sínum á 20. öld var Bartók framúrskarandi hljóðfæraleikari – en einnig á þessu sviði dvínaði áhugi heimamanna eftir því sem á leið. Nú kom sér vel að eiga góða vini. Carl Engel hjá Schirmer-forlaginu sá til þess að Bartók fékk 3000 dollara árslaun við að umrita og tóngreina serbókróatísk þjóðlög í hljóðritasafni Columbia-háskólans, sem gerði þeim hjónum kleift að borga húsaleigu. En Bartók samdi enga tónlist það árið. Burtséð frá annríkinu við háskólastarfið fann hann engan innblástur í New York og honum þótti borgin hávaðasöm og ágeng. Sagt er að þau Ditta hafi eitt sinn villst um vegaleysur neðanjarðarlestakerfisins í þrjár klukkustundir áður en þau komust á leiðarenda.

Í ofanálag fór heilsu Bartóks hrakandi. Vorið 1943 kom í ljós að hann þjáðist af hvítblæði og lítil von til þess að hann lifði nema örfáa mánuði. Enn var það traustur vinur sem kom honum til bjargar á ögurstundu. Rússneski hljómsveitarstjórinn Sergei Koussevitzky hafði tekið við stjórn sinfóníuhljómsveitarinnar í Boston árið 1924 og kom henni í hóp þeirra bestu á heimsvísu. Natalía, eiginkona hans, var af efnafólki komin og þegar hún andaðist setti Koussevitzky á stofn tónskáldasjóð í minningu hennar. Nú boðaði stjórnandinn komu sína á Mount Sinai-sjúkrahúsið á Manhattan og gerði samkomulag við Bartók þess efnis að hann myndi semja fyrir sig nýtt hljómsveitarverk tileinkað minningu Natalíu. Bartók tók dræmt í beiðnina í fyrstu, sannfærður um að honum myndu aldrei endast kraftar til að semja svo viðamikið verk. En heimsóknin hafði undraverð áhrif. Strax næsta dag virtist tónskáldið á batavegi og fór að leggja drög að því að dvelja við Saranac-vatn í norðanverðu New York-ríki um haustið, þar sem hið nýja verk varð til á innan við tveimur mánuðum.

Konsertinn skiptist í fimm þætti. Sá fyrsti hefst á hægum inngangi þar sem ferundir eru áberandi – upphafið minnir nokkuð á Kastala Bláskeggs, óperu Bartóks frá 1911 – en síðan tekur við eins konar sónötuform þar sem tvö stef eru í forgrunni. Bartók notaði sjaldan þjóðlög í verkum sínum en andi þeirra svífur hvarvetna yfir; hér hafa fræðimenn greint áhrif frá lögum sem Bartók safnaði í Búlgaríu og Norður-Afríku, auk þess sem sígaunaskalinn og ungverski verbunkos-stíllinn svokallaði eiga sinn skerf í tónlistinni. Einnig bregður hann fyrir sig aðferðum gömlu meistaranna, snýr aðalstefinu á haus og býr því næst til voldugan kanón fyrir málmblásara.

Annar þáttur ber yfirskriftina Giuoco delle coppie eða Leikur í pörum. Hér eru blásararnir í forgrunni og fyrst um sinn fær hvert hljóðfærapar sitt stef: tvö fagott, tvö óbó, tvö klarínett, tvær flautur, tveir trompetar. Þegar stefin heyrast aftur blandast pörin innbyrðis: óbó með klarínetti, klarínett með flautu, flauta með óbói. Bartók hreifst mjög af því sem hann kallaði tónlist næturinnar; í verkum sínum skapaði hann oft dulúðuga draumaveröld þar sem heyrist niður í engisprettum, fuglakvak eða öldugjálfur. Ytri hlutar þriðja þáttar (Elegía/Harmljóð) eru einmitt af þessum toga; ofurveikar trillur, tremoló, glissandó og arpeggíur gefa tónlistinni mystískan blæ.

Í fjórða þætti (Intermezzo interrotto eða „Millispil með truflun“) bregður Bartók á leik. Eftir hæglátt upphafsstef og hálfgerðan sálm, sem allt eins gæti verið eftir Elgar, tekur groddaleg sirkusmúsík að hljóma og ryður öllu öðru úr vegi. Hér gerir Bartók gys að Leníngrad-sinfóníu Dmítríjs Sjostakovitsj, þar sem fyrsti þátturinn á að lýsa innrás nasista í Sovétríkin. Slík prógrammúsík féll Bartók illa í geð og ekki síður vinsældirnar sem sinfónían naut á stríðárunum, á meðan að ungverska tónskáldið barðist í bökkum í ókunnu landi. Lokaþátturinn er glæsileg virtúósasmíð með hornablæstri og sígaunastefjum. Hraðar tónarunurnar í fiðlum byggði Bartók á rúmenskum dansi, horǎ nemtseascǎ, sem hann hafði heyrt á hljómplötu nokkrum árum fyrr.