EN

Béla Bartók: Píanókonsert nr. 1

Béla Bartók (1881–1945) var helsta tónskáld Ungverjalands á 20. öld og uppruni hans mótaði lífsstarfið allt. Hann leit á það sem hlutverk sitt að bjarga þjóðlegri tónlist heimalands síns frá gleymsku. Liszt og Brahms höfðu í verkum sínum notað ungverska sígaunamúsík sem hljómaði á kaffihúsum borganna. En Ungverjar áttu líka annars konar tónlist. Í fáförnum fjallahéruðum var að finna bændur og alþýðufólk sem kunni ógrynnin öll af söngvum með framandi blæ. Bartók ferðaðist um sveitir landsins ásamt öðru tónskáldi sem einnig hafði brennandi áhuga á þjóðlögum, Zoltán Kodály (1882–1967), og festi bændasöngva á vaxhólkahljóðrita sem Thomas Edison hafði fundið upp nokkru áður. Bartók varð með tíð og tíma afkastamikill þjóðlagasafnari og fræðimaður. Hann hélt sig ekki einungis við sveitir heimalands síns heldur safnaði nærri 10.000 þjóðlögum frá Rúmeníu, Slóvakíu, Búlgaríu, Króatíu og Serbíu, og hélt jafnvel í leiðangur til Norður-Afríku í því skyni. Hann skrifaði lögin upp, ritaði um þau fræðigreinar og útsetti fyrir ýmsar samsetningar hljóðfæra. Eftir því sem árin liðu varð tónlist Bartóks gegnsýrð af anda þjóðlagsins. Jafnvel þegar hún var að öllu leyti frumsamin ber hún blæ bændasöngvanna sem urðu honum eins og annað móðurmál.

Fáum módernistum tókst á fyrstu áratugum 20. aldar að sameina framsækna tónsköpun og þjóðararf á svo sannfærandi hátt sem Bartók. Árangurinn má til dæmis heyra í ómstríðum og kraftmiklum píanótónsmíðum eins og Allegro barbaro (1911) og svítu fyrir píanó op. 14 (1916). Til að skýra nýstárlegan stílinn benti hann á að ungversk þjóðlög eiga það til að skiptast í mislangar hendingar og tónbilin eru fjölbreytt, tvíundir, ferundir og sjöundir koma þar fyrir. Við slíkan efnivið var því einboðið að hafa ómstríða hljóma. Lögin eru líka flest í gömlum kirkjutóntegundum og í gegnum þau losnaði Bartók undan því sem hann kallaði „ofríki dúr/moll-kerfisins“. Tónlist hans er bæði smástíg og ómstríð en hefur þó ávallt einhvers konar tónmiðju, enda þótti honum auðséð að öll þjóðlagatónlist væri bundin við tóntegund af einu eða öðru tagi.

Bartók samdi fyrsta píanókonsert sinn af þremur árið 1926, og frumflutti verkið árið síðar undir stjórn Wilhelms Furtwängler. Þetta er sérlega óvenjulegt og frumlegt verk, fullt af ómstríðum og óvæntum vendingum, en þétt og litrík fjölröddunin ber líka vitni um áhuga Bartóks á barokktónlist um þetta leyti.