EN

Benjamin Britten: Lachrymae

Benjamin Britten (1913–1976) varð á árunum eftir stríð eins konar þjóðartónskáld Breta og einn helsti talsmaður „hefðbundinnar“ nútímatónlistar. Tónlist hans er lagræn, hann notar hefðbundna skala og hefur tónmiðju til grundvallar þótt hann noti ómstríða tóna einnig frjálslega. Britten var afkastamikið óperuskáld, samdi sautján slíkar á árunum 1941–73 og mikinn fjölda annarra söngverka að auki. Hann hafði eðlislægan skilning á mannsröddinni og var eitt fárra tónskálda á síðari hluta 20. aldar sem lögðu varanlegan skerf til óperunnar með verkum sem nú eru færð upp um allan heim.

Britten var meðal þeirra sem töldu listamanninn fyrst og fremst eiga að gera samfélaginu gagn. Aðgengileg tónlist hans tryggði honum meiri hylli meðal almennings en flestir samtímamenn hans í tónskáldastétt gátu státað af. Opinberar viðurkenningar féllu honum einnig í skaut, til dæmis Aspen-verðlaunin svokölluðu árið 1964 en þeim var ætlað að verða eins konar Nóbelsverðlaun í listum. Í þakkarræðu sinni af því tilefni kvaðst Britten helst vilja „verða fólki að gagni“ með tónlist sinni, veita því ánægju og auðga líf þess, en „láta framtíðina sjá um sig sjálfa“.

Britten samdi verkið Lachrymae (sem merkir tár á latínu) árið 1950 fyrir skoska víóluleikarann William Primrose, og var verkið í sinni upphaflegu gerð fyrir víólu og píanó. Britten útsetti píanóröddina fyrir strengjasveit skömmu áður en hann lést. Lachrymae er röð tilbrigða um fyrstu hendinguna úr lagi Dowlands, If My Complaints Could Passions Move. Britten gerir raunar gott betur, því hann vitnar líka í annað sönglag Dowlands, Flow My Tears. Það er svo ekki fyrr en undir lok verksins sem söngur Dowlands hljómar í heild sinni, en ekki aðeins fyrsta hendingin.