EN

Bergrún Snæbjörnsdóttir: Striations

Tónlist Bergrúnar Snæbjörnsdóttur (f. 1987) hefur vakið sívaxandi athygli á undanförnum árum en á meðal tónlistarhópa sem hafa flutt verk hennar má nefna sveitir svo sem Fílharmóníusveitina í Osló og International Contemporary Ensemble. Bergrún nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og síðar við Mills College í Kaliforníu þar sem hún naut leiðsagnar brautryðjenda á sviði framsækinnar tilraunatónlistar; má þar nefna Pauline Oliveros, Roscoe Mitchell, Fred Frith og Zeenu Parkins.

Bergrún vinnur á spennandi mærum ólíkra listgreina, tónlist hennar oft samofin myndlist og innsetningum en kveikjur og áhrif eru gjarnan sótt í heimspeki og náttúrufyrirbæri. Í verkum hennar er hinn sjónræni þáttur iðulega virkjaður og hlutverk tónlistarflytjandans opið og spunakennt þar sem Bergrún nýtir sér óhefðbundna nótnaskrift. Á meðal nýlegra verka má nefna Agape, sem sýnt var á myndlistarhátíðinni Sequences árið 2021; Ecognosis, pantað af International Contemporary Ensemble árið 2021 og Striations, pantað af Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham og frumflutt af Ungsveit hennar undir stjórn Ilan Volkov á síðasta ári.

Efniviður verksins Striations eru hljóðfæri hinnar klassísku sinfóníuhljómsveitar og nótnaskriftin að mestu hefðbundin en Bergrún þenur út hljóðheima og strúktúra og nýtir sér til fullnustu ríkuleg blæbrigði sem finna má í hljóðgjöfum hljómsveitarinnar. Leitandi, varfærnislegir ómar, bjagaðir og blæbrigðaríkir fljóta áfram, tónsviðið frekar hátt og strítt, við heyrum ýlfur, hvískur, más og blástur sem saman mynda einn lífrænan hljóðmassa sem sogar okkur til sín. Titillinn Striations vísar í rákir, í jöklum, jarðlögum eða jafnvel á mannslíkamanum; kviður sem þenst út, líkami sem umbreytist þegar nýtt líf er væntanlegt í heiminn. Tími og skynjun bjagast þegar við tökum að gefa þessu hægfara umbreytingarferli gaum. Sem hlustendur tökum við á móti hljóðinu og leyfum því að móta okkur, strekkja á vitund og skilja eftir varanleg ummerki.

Samstarf Bergrúnar Snæbjörnsdóttur og Sinfóníuhljómsveitar Íslands teygir sig aftur til ársins 2014; þá flutti sveitin verkið Esoteric Mass á Tectonics tónlistarhátíðinni, en hátíðin var undir listrænni stjórn Ilan Volkov sem þá var aðalhljómsveitarstjóri SÍ. Tónlist Bergrúnar hljómaði aftur á Tectonics ári síðar og árið 2019 frumflutti sveitin verkið Skin in, samið að beiðni hljómsveitarinnar og Önnu Þorvaldsdóttur, þá staðartónskálds sveitarinnar. Þetta er Íslandsfrumflutningur hljómsveitarverksins Striations.