EN

Camille Saint Saëns: Odelette

Camille Saint Saëns (1835–1921) fæddist í París. Hann var undrabarn og hélt sína fyrstu píanótónleika ellefu ára gamall. Hann stundaði nám í orgelleik og tónsmíðum við Tónlistarháskólann í París og stóð á tvítugu þegar fyrsta sinfónía hans var frumflutt. Stuttu síðar gerðist hann organisti við Madeleine-kirkjuna í París og starfaði þar í tuttugu ár. Á þessum árum kynntist hann Franz Liszt sem lýsti Saint-Saëns sem heimsins besta organista. Hann kenndi um skeið við Niedermayer-tónlistarskólann þar sem Gabriel Fauré og André Messager voru meðal nemenda hans.

Stuttu eftir að Frakkar biðu lægri hlut í stríðinu við Prússland stofnuðu frönsk tónskáld Þjóðartónlistarfélagið (Société Nationale de Musique). Markmiðið var að hvetja þarlend tónskáld til dáða, ekki síst í þeim greinum sem hingað til höfðu helst verið ríkjandi á verkaskrám Þjóðverja, sinfóníum og sónötum, konsertum og kammertónlist. Var Saint-Saëns einn af hvatamönnum að stofnun þessa félagsskapar og formaður hans til margra ára.

Saint-Saëns var annars einn fjölhæfasti tónlistarmaður aldarinnar, feiknagóður píanisti og organisti og áhrifamikill í frönsku tónlistarlífi um langa hríð. Viðamesta hljómsveitarverk hans er þriðja sinfónían (1886), kölluð Orgelsinfónían þar sem hljóðfærið hefur áberandi hlutverk. Er hún hans lengsta verk að óperunum undanskildum en þær urðu alls 13 talsins og er Samson og Dalíla þeirra þekktust. Alls urðu verkin á fjórða hundrað talsins en auk fyrrnefndra verka er Karnival dýranna (Le Carnaval des animeaux) og Dauðadans (Danse macabre) oftast flutt.

Það vekur athygli að tréblásturshljóðfæri voru hinu aldna tónskáldi hugleikin síðustu æviárin. Samdi hann á dánarárinu sónötur fyrir óbó, klarínettu og fagott en einleiksverkið Odelette fyrir flautu og hljómsveit ári fyrr. Odelette er nafn á konu í tyrknesku kvennabúri og sýnir áhuga tónskáldsins á ósvikinni tónlist íslamskra landa sem er töfrandi, aðlaðandi og hlustendavæn.

Odette eftir Camille Saint-Saëns hljómar nú í fyrsta skipti á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aftur á móti hafa hin flautuverkin tvö heyrst hér í Eldborgarsal Hörpu. Melkorka Ólafsdóttir flutti I hear the Water dreaming eftir Takemitsu með hljómsveitinni í lok septembermánaðar 2011. Stjórnandi var Ilan Volkov. Þá lék Emilía Rós Sigfúsdóttir Concertino eftir Chaminade með Sinfóníunni fyrir ríflega tveimur árum undir stjórn Eyvinds Aadland. Það verk hefur oftar heyrst í upprunalegu útgáfunni fyrir flautu og píanó og er flutningur James Galway á Listahátíð í Reykjavík 1992 einkar minnisstæður.