EN

Carl Stamitz: Klarínettkonsert nr. 7 í Es-dúr

Framgangur tónlistarinnar hefur stundum oltið á áhrifamiklum einstaklingum sem hafa haft ánægju af og áhuga á tónlist. Við hirðina í bænum Mannheim, á bökkum Rínarfljóts í Suður-Þýskalandi, starfaði á 18. öld öflug og óvenju fjölmenn hljómsveit, sem hélt tónleika tvisvar í viku. Kjörfurstinn Karl Theodór sem þar var einlægur tónlistarunnandi. Hróður hljómsveitarinnar barst víða, fólk gerði sér ferð til bæjarins til að hlýða á dýrðina, þeirra á meðal var Mozart. Blásturshljóðfærum var gert hátt undir höfði í hljómsveitinni, meðal nýjunga var klarínettið, sem öðlaðist fastan sess í tónlistarlífinu í Mannheim. Á hljóðfærinu höfðu verið gerðar talsverðar breytingar á sjöunda áratug átjándu aldar, tóninn var orðinn liprari og sveigjanlegri og bauð upp á ýmsa áður óþekkta möguleika.

Tónskáldið Johann Stamitz sem var af tékkneskum ættum samdi fjölda sinfónía fyrir hljómsveitina í Mannheim og varð stjórnandi hennar. Sonur hans Carl Stamitz (1745-1801) lærði fiðluleik af föður sínum og spilaði í hirðhljómsveitinni en hóf síðar feril sem einleikari og hélt tónleika í evrópskum borgum svo sem Vín, París, London, Amsterdam og Pétursborg auk fjölda þýskra borga. Carl Stamitz var líka tónskáld eins og faðir hans, hann samdi sinfóníur, konserta og kammermúsík í anda samtímamanna sinna á borð við Mozart og Haydn. Um 1770 kynntist Stamitz klarínettleikaranum Johann Joseph Beer og samstarf þeirra átti eftir að verða gjöfult, en Stamitz samdi átta klarínettkonserta á tímabilinu 1771-1776 meðan báðir bjuggu í París, það eru meðal fyrstu einleikskonsertanna sem samdir voru fyrir hljóðfærið.

Á aðfangadag árið 1771 hljómaði klarínettkonsert í fyrsta sinn á tónleikum í París, sá var eftir Carl Stamtiz, hugsanlega var það Konsert nr. 7 í Es-dúr. Tónmál Stamitz þykir fela í sér fágaðar melódíur, þaulhugsaða byggingu og ríkulega notkun á möguleikum hljómsveitarinnar, þá er einleikshlutverkið í konsertinum krefjandi en veitir einleikaranum tækifæri til að glansa.