Caroline Shaw: Entr’acte
Caroline Shaw (f. 1982) er bandarískur fiðluleikari, söngkona og tónskáld. Hún hlaut Pulitzer-verðlaunin í tónlist árið 2013 fyrir verk sitt Partíta fyrir 8 raddir, og er yngsta tónskáldið sem hlotið hefur þann heiður. Hún hóf að leika á fiðlu tveggja ára gömul, og samdi sitt fyrsta verk tíu ára. Hún lauk meistaraprófi í fiðluleik frá Yale-háskólanum árið 2007 og hefur stundað doktorsnám í tónsmíðum við Princeton-háskóla undanfarin ár. Hún kemur fram sem fiðluleikari og söngvari, og verk hennar hafa verið flutt af mörgum helstu tónlistarhópum Bandaríkjanna. Hún hefur einnig starfað með tónlistarmönnum í öðrum geirum, m.a. starfaði hún með rapparanum Kanye West að endurhljóðblöndun lagsins Say You Will árið 2015, en þar kemur hún einnig fram sem söngkona.
Verkið Entr’acte var upphaflega samið fyrir strengjakvartett (2011) en umritað fyrir strengjasveit árið 2014. Innblásturinn að verkinu var flutningur Brentano-strengjakvartettsins á kvartett Haydns op. 77 nr. 2, ekki síst þriðja þætti verksins sem er menúett og tríó. Verk Shaw er í þessu sama formi, en með nokkrum viðbótum. Shaw segist hrífast af því hvernig sum tónlist, eins og menúettinn í op. 77, fari með hlustandann „hinum megin við spegil Lísu í Undralandi, með fáránlegum, litríkum en þó varfærnum tengingum milli ólíkra hugmynda“.