EN

Cecile Chaminade: Concertino

Cécile Louise Stéphanie Chaminade (1857–1944) fæddist í París og barnung fékk hún tilsögn í píanóleik hjá móður sinni. Framúrskarandi tónlistarhæfileikar hennar vöktu fljótt athygli og tíu ára gamalli stóð henni til boða að innritast í Tónlistarháskólann í París. Föður hennar þótti það ekki við hæfi en leyfði henni að sækja einkatíma hjá kennurum skólans og sótti hún tíma í píanóleik, fiðluleik og tónsmíðum. Chaminade byrjaði snemma að semja tónlist og tólf ára gömul lék hún eigin verk fyrir tónskáldið Georges Bizet sem hreifst af hæfileikum hennar.

Rétt rúmlega tvítug hélt hún tónleika með eigin verkum og mörkuðu þeir upphaf slíkra tónleika út allan hennar starfsferil. Tónleikaferðir hennar um heimalandið urðu fjölmargar en hún ferðaðist einnig oft til Englands og 1908 hélt hún tónleika í tólf borgum Bandaríkjanna og naut mikilla vinsælda hvar sem hún kom. Var hún fyrsta kventónskáldið sem hlaut riddaraorðu franska lýðveldisins.

Cécile Chaminade samdi um ævina um 400 tónverk af ýmsum toga, mestmegnis píanóverk og einsöngslög en einnig hljómsveitar- og kammerverk og eina óperu.

Concertino op. 107 fyrir flautu og píanó skrifaði hún árið 1902 að beiðni Tónlistarháskólans í París og var verkið hugsað sem prófverkefni fyrir flautunemendur skólans. Það er tileinkað Paul Taffanel sem var mikill flautusnillingur og kennari við stofnunina. Þetta glæsiverk hefur löngum prýtt efnisskrár flautuleikara og er sú tónsmíð sem hefur haldið nafni Cécile Chaminade á lofti.