EN

Charles Gounod: Sinfónía nr. 1

Charles Gounod (1818–1893) fæddist í smábænum Saint-Cloud  í nágrenni Parísar. Faðir hans var listmálari en móðirin fær píanisti og hjá henni fékk Gounod sína fyrstu tónlistarmenntun. Hann lærði síðar hjá bæheimska tónskáldinu Anton Reicha áður en hann var tekinn inn í Konservatóríið í París. Eftir þriggja ára nám þar hlaut hann Prix de Rome-verðlaunin sem tryggðu honum þriggja ára dvöl í Róm. Á þessum árum kynntist hann Fanny Mendelssohn en hún opnaði fyrir honum heim þýskrar hljóðfæratónlistar með verk Beethovens í forgrunni. Á heimleið eftir dvölina í Róm heimsótti Gounod Felix, bróður Fannyar, í Leipzig og heyrði meðal annars Skosku sinfóníu Mendelssohns sem hafði mikil áhrif á hann. Óperutónlist var á þessum tíma allsráðandi í París og sagði tónskáldið Camille Saint-Saëns eitt sinn, að sá sem vogaði sér að freista gæfunnar á sviði sinfónískrar tónlistar, yrði sjálfur að standa straum af flutningnum og láta sér nægja að bjóða vinum og gagnrýnendum á tónleikana. 

Gounod sló í gegn með óperu sinni Faust árið 1859. Fyrstu óperunum sem hann samdi á árunum uppúr 1850 var aftur á móti fálega tekið - og líkt og hann orðaði það sjálfur - ákvað hann árið 1855 að leita sér huggunar með því að snúa sér að öðru tónlistarformi, sinfóníunni. Samdi hann sinfóníurnar í D-dúr og Es-dúr á innan við ári og eru þær hans einu verk af þessari gerð. Byrjaði hann á þriðju sinfóníunni en lauk ekki við hana.

Sinfóníur Gounods eru í röð mikilvægustu sinfónísku verka Frakka frá miðri 19. öld. Þær eru trúar sinfónísku hefðinni hvað uppbyggingu varðar en eru frumlegar á margan hátt. Vissulega heyrast í þeim kunnugleg stílbrögð frá skáldbræðrum hans af þýska skólanum en persónulegt tónmál Gounods er þó stöðugt í forgrunni. 

Fyrsta sinfónía Gounods er sérlega vel samin, glæsileg og aðlaðandi tónsmíð sem akkur er í fyrir íslenska tónlistarunnendur að fá loks að kynnast.