EN

Charles Ives: Sinfónía nr. 3, The Camp Meeting

Charles Ives (1874–1954) var sonur lúðrasveitarstjóra sem hafði þjónað í bandaríska borgarastríðinu og var áhugasamur uppfinningamaður á sviði tónlistar. Sá eiginleiki varð syninum mikil fyrirmynd og aðdáunarefni. Ives hlaut hefðbundna skólagöngu og var um það bil að hefja feril sem organisti þegar hann sagði skilið við atvinnumennsku í tónlist og réð sig til tryggingafyrirtækis sem malaði gull. Þar sem Ives stundaði tónsmíðar eingöngu sem áhugamál gat hann leyft sér hvað sem var.

Ives var „lýðræðislegur“ að því leyti að ýmsar stíltegundir renna saman í eitt í verkum hans, ekki ósvipað því sem gerist hjá Mahler þótt sjálfur efniviðurinn sé af öðrum toga. Ives vitnar í verkum sínum í bandarísk dægurlög, ættjarðarsöngva, hergöngumúsík og sálmalög, og hrærir öllu saman í – að því er virðist – einn graut. Sjálfur sagði Ives svo frá að uppruna þess arna væri að finna í bernsku sinni, þegar hann heyrði tvær lúðrasveitir nálgast hvora úr sinni áttinni og leika sitt lagið hvor í ólíkum hraða, hryn og tóntegund. Útkoman heillaði hann og varð kveikjan að hans eigin tilraunum til að tefla í senn fram ólíkum eðlisþáttum tónlistar. Þannig sameinaði hann í verkum sínum ómstríðan módernisma, dálæti á bandarískum tónlistararfi og þrá eftir þeirri smábæjarmenningu sem hann minntist úr bernsku sinni.

Verk Ives eru mörg afar flókin, hvort sem um er að ræða einleiks-, kammer- eða hljómsveitarmúsík. Þar má til dæmis nefna Concord-sónötuna fyrir píanó (um 1916–19), í fjórum þáttum sem hver ber nafn heimspekings eða rithöfundar frá Nýja-Englandi. Stundum skrifar hann þar svo hnausþykka hljóma að ógerningur er að leika alla tónana með aðeins tíu fingrum; á einum stað er píanistinn látinn þrýsta niður öllum tónum hljóðfærisins á tveggja áttunda bili með þar til gerðri spýtu.

Ómstríð framúrstefnumúsík Ives hljómaði ekki opinberlega svo áratugum skipti. Til dæmis samdi hann sinfóníu nr. 3 á árunum 1908–10 en verkið var ekki frumflutt fyrr en 1946 og hlaut hin virtu Pulitzer-verðlaun ári síðar. Þá var loks farið að hylla Ives sem brautryðjanda í vestrænni tónsköpun, ekki síst þar sem svo virtist sem hann hefði fyrstur manna uppgötvað eitt og annað. Rannsóknir síðari ára hafa leitt í ljós að Ives átti það til að endurskoða verk sín löngu síðar, gerði þau framúrstefnulegri en breytti ekki ártölunum sem þeim fylgdu. Af þessu sést að hann vildi ólmur vera frumkvöðull í listinni ekki síður en margir starfsbræður hans í Evrópu.

Sinfónía nr. 3 er samin fyrir fremur litla hljómsveit, en stefjaefnið er hið fjölbreytilegasta eins og Ives er von og vísa. Í þremur þáttum fléttar Ives saman hinum ólíklegustu lögum og lagbútum, í eins konar tónavef æskuminninga.