EN

Charles Ives: The Unanswered Question

Segja má að tónskáldið Charles Ives (1874-1954) hafi lifað tvöföldu lífi. Framan af vissu að minnsta kosti ekki margir úr hópi starfsmanna og viðskiptavina tryggingafyrirtækisins Ives & Myrick af hinum stórkostlega frumlegu tónsmíðahugmyndum sem bærðust innra með forstjóra fyrirtækisins. Í tryggingabransanum var Ives helst þekktur fyrir annars konar verk – til að mynda öndvegisritið Líftryggingar og samband þeirra við erfðaskatt, sem út kom 1918.

Tónlistaráhugi Ives átti sér þó djúpar rætur. Faðir hans var tónlistarkennari og lúðrasveitarstjóri í smábæ í Connecticut-ríki og sjálfur vann hann sem kirkjuorganisti í heimabæ sínum frá 12 ára aldri. Mörg verka hans fela í sér úrvinnslu á bandarískum tónlistararfi og þeim áhrifum sem tónlist Nýja-Englands hafði á hann í æsku. Þar bregður fyrir dægurlögum, sálmum, hlöðudönsum, og lúðrasveitalögum en tök Ives á efniviðnum voru annars eðlis en áður höfðu þekkst. Hann var áratugum á undan samtímamönnum sínum í kerfisbundinni notkun á tilraunakenndum tónsmíðaaðferðum: Klippi- og slembiaðferðum, notkun kvarttóna og hljómaklasa, og því að láta ólíkar
takt- og tóntegundir hljóma á sama tíma.

Verkið The Unanswered Question er æskuverk, samið í júlí 1906, en geymt í skúffu tónskáldsins fram á miðjan fjórða áratuginn. Þá tók Ives það upp á ný og fullkláraði og enn síðar bættist við formáli þar sem fram kemur að verkið fjalli um „hina eilífu tilvistarspurningu“ mannkyns. Tónlistin í verkinu á sér stað í þremur aðgreindum lögum. Strengirnir leika ofurhljótt og stillt og eiga þeir að tákna „þögn drúídanna sem vita, sjá og heyra ekkert“. Trompetið setur fram spurningu í þýðu en dálítið annarlegu fimm tóna stefi. Flauturnar leika svo að sögn Ives hlutverk mannkynsins í leit að svörum, þær enduróma tóna trompetsins fyrst hægt og stillilega, en svo með vaxandi ákefð og óreiðukenndu ergelsi, jafnvel háði yfir fánýti spurnarinnar. Á meðan fær ekkert haggað strengjahljóminum sem líður áfram uns hann hverfur inn í þögnina.