EN

Claude Debussy: Forleikur að Síðdegi skógarpúkans

Í árslok 1890 kynntist hinn 28 ára gamli Claude Debussy (1862–1918) skáldinu Stephane Mallarmé, sem var ásamt Paul Verlaine fremsta symbólistaskáld franskar ljóðagerðar. Debussy og Mallarmé hittust um skeið vikulega á svokölluðu „salon“ ljóðskáldsins, þar sem listamenn úr hinum ýmsu geirum ræddu sameiginleg áhugamál. Mallarmé átti hugmyndina að því að hið unga – og að mestu óreynda – tónskáld semdi tónlist við ljóð sitt, L’après‑midi d’un faune (ort 1865, fyrst gefið út 11 árum síðar), sem á sínum tíma vakti athygli fyrir draumkennda erótík og torskilið myndmál. Í ljóðinu lýsir Mallarmé dagdraumum skógarpúka, goðsagnakenndrar veru sem er hálfur maður og hálf geit. Á heitum sumardegi kemst púkinn í kynni við (eða dreymir um – í kvæðinu eru skilin milli draums og veruleika heldur óljós) fagrar skógardísir. Púkinn gerist ástleitinn en þótt honum takist stundum að smella kossi á dísirnar fögru renna þær honum sífellt úr greipum. 

Hinn draumkenndi tónn sem Mallarmé sló í kveðskap sínum fann samhljóm í tónsmíð Debussys. Tilvísanir kvæðisins í tónlist spilltu heldur ekki fyrir, en skógarpúkinn leikur á flautu á milli þess sem hann reynir að draga dísir skógarins á tálar. Tónlistin er margræð og erfitt er að festa hendur á ákveðinni tóntegund eða hefðbundnum hljómagangi. Þetta er eitt megineinkenni verksins og í því fólust áhrif þess á þróun tónlistar á 20. öld. Hljómarnir ferðast sjaldnast eftir hefðbundnum brautum og því er ómögulegt að segja til um hvert ferðinni er heitið næst – nema maður þekki verk Debussys þeim mun betur. „Þessu átti ég alls ekki von á,“ hrópaði ljóðskáldið Mallarmé eftir að hafa heyrt Debussy leika forleikinn á píanó skömmu fyrir frumflutninginn í desember 1894. Pierre Boulez komst eitt sinn svo að orði að með smástígri flautulínunni í upphafi verksins hafi tónlist 20. aldar litið dagsins ljós. 

Með frumflutningnum komst Debussy í framvarðasveit nýrrar tónsköpunar og hið nýstárlega verk vakti harðar deilur, eins og við var að búast. Camille Saint-Saëns var meðal þeirra sem hneyksluðust: „Hljómurinn er fallegur, en það er ekki ein einasta innblásin hugmynd í verkinu öllu. Að kalla þetta tónverk er sambærilegt við að kalla litaspjald málarans fullgert málverk.“ Louis Elson komst skemmtilega að orði í gagnrýni sinni eftir flutning verksins í Boston 1904: „The faun must have had a terrible afternoon.“ Það varð svo til að bæta gráu ofan á svart þegar rússneski ballettstjórinn Sergei Diaghilev setti á svið ballettuppfærslu af Skógarpúkanum árið 1912, með dönsum eftir hinn víðfræga Vaslav Nijinskíj. Erótískur dans Nijinskíjs þótti ganga út yfir öll velsæmismörk, og frumflutningurinn var succès de scandale rétt eins og uppfærsla sama hóps á Vorblóti Stravinskíjs ári síðar.