EN

Claude Debussy: La mer

Það lá vel fyrir impressjónistum að túlka í list sinni vatn í hinum ýmsum birtingarmyndum. Málverkið sem varð til þess að Claude Monet hlaut viðurnefnið „impressioniste“ – í neikvæðri merkingu – var Soleil levant, þar sem tveir bátar sjást vagga í höfninni í Le Havre með rísandi sól í bakgrunni. Maurice Ravel samdi gosbrunnastykkið Jeux d'eau og í upphafs- þætti Gaspard de la nuit lýsir hann vatnadísinni Ondine sem syndir um höfin blá og tælir menn með dulúðlegum söng.

Claude Debussy (1862–1918) túlkaði einnig vatn og haf í verkum sínum, meðal annars hina sömu Ondine í einni af píanóprelúdíum sínum. Kunnasta verk hans af þessum toga er þó La mer. Hann festi fyrstu taktana á blað árið 1903 í sumar- leyfi í Búrgúnd, í Frakklandi miðju, fjarri ströndum og hafi. Debussy byggði verk sitt á óræðum minningum um hafið fremur en raunverulegri upplifun, og honum þótti gagnrýnandinn Pierre Lalo hafa misskilið sig fullkomlega þegar hann ritaði í blaðadómi að hann hefði „hvorki séð né fundið angan af hafinu“ í tónlist Debussys. Því fór fjarri að Debussy hefði ætlað að semja nákvæma eftirlíkingu heldur vildi hann vekja þau hughrif sem hafið kallar fram – eins og sönnum impressjónista sæmdi.

La mer er hið mikilfenglegasta af hljómsveitarverkum Debussys, og það eina sem viðheldur tengslum við hefðbundnar formvenjur. Undirtitillinn er „Þrjár sinfónískar skissur“ og má segja að Debussy hafi aldrei komist nær því að semja sinfóníu en hér. Frumflutningurinn árið 1905 þótti takast illa og bæði flytjendur og áheyrendur létu sér fátt um finnast. Ekki leið þó á löngu þar til verkið var viðurkennt sem eitt mesta hljómsveitarverk sinnar tíðar. Í ævisögu Svjatoslavs Richter er vitnað í orð hans þegar hann hafði hlýtt á eftirlætishljóðritun sína af verkinu, undir stjórn Rogers Désormière: „La mer enn á ný, ég þreytist aldrei á að heyra það, að hugleiða það og anda að mér stemningu þess. Og hvert skipti er eins og í fyrsta sinn! Ráðgáta, kraftaverk, einskærir töfrar!“

Upphafsþáttur verksins hefst á veikum og blíðum sjávarniði. Öldugangurinn verður smám saman ákafari en síðan lygnir á ný. Miðkaflinn er hraðasti og flóknasti hluti verksins. Veik, loftkennd og dulúðleg hljómsveitarútsetningin á stóran þátt í áhrifunum og tónlistin hreinlega gufar upp að endingu. Í lokaþættinum laðar Debussy svo fram ógnarkrafta hafsins.