EN

Daníel Bjarnason: From Space I Saw Earth

Nýjasta hljómsveitarverk Daníels Bjarnasonar, From Space I Saw Earth, er samið fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles í tilefni af 100 ára afmæli hennar og var frumflutt á afmælistónleikum hennar í október síðastliðnum. Þar stjórnuðu hljómsveitinni þrír núverandi og fyrrverandi aðalstjórnendur hennar: Gustavo Dudamel, Esa-Pekka Salonen og Zubin Mehta.

Daníel segir sjálfur um verk sitt: „Á sjöunda áratug 20. aldar kepptust Bandaríkin og Sovétríkin um að verða fyrsta landið til að koma mönnum út í geim. Sovétmenn höfðu betur í upphafi; Júríj Gagarín varð fyrsti maður til að komast út í geim árið 1961. Á næstu árum lögðu Bandaríkjamenn allt kapp á að gera betur og árið 1969 stigu Neil Armstrong og Buzz Aldrin fæti á tunglið. Geimferðaáætlanir höfðu í för með sér margvíslegar byltingar í vísindum og tækni, en þær hafa líka gefið okkur mönnunum nýtt sjónarhorn. Geimfarar segja að ein áhrifamesta upplifun slikra ferða sé sú að eiga þess kost að horfa á jörðina úr geimnum, sem eina heild, eitt vistkerfi hulið örþunnum lofthjúp í hinu gríðarmikla myrkri geimsins. Verk mitt er hið síðasta af þremur þar sem ég velti fyrir mér geimferðum og tunglgöngu. Hin tvö eru píanótríóið White Flags, sem er hugleiðing um hvernig bandarísku fánarnir sem Apollo 11-geimfararnir komu fyrir á tunglinu eru orðnir hvítir að lit, og We Came in Peace for All Mankind, innsetning fyrir 12 hornleikara, píanó og rafhljóð, sem heitir eftir áletrun á skildi sem geimfararnir komu fyrir á tunglinu í sömu ferð.“

Daníel Bjarnason stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 2003. Hann stundaði framhaldsnám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi frá 2004–2007 og lauk þaðan prófi með hæstu einkunn.

Daníel hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká. Hann hefur gefið út þrjá hljómdiska hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010), Solaris (2012) og Over Light Earth (2013). Meðal helstu verka Daníels eru óperan Brothers sem sýnd var á Íslandi á Listahátíð í Reykjavík við mikla hrifningu, og fiðlukonsert sem var pantaður af Fílharmóníusveit Los Angeles og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumfluttur af Pekka Kuusisto og fyrrnefndu sveitinni undir stjórn Gustavos Dudamel í Hollywood Bowl.