EN

Daníel Bjarnason: Processions

Í konsertum klassíska og rómantíska skeiðsins kalla hljómsveit og einleikari á athygli áheyrenda til skiptis. Þegar sólistinn er ekki önnum kafinn við að hrífa áheyrendur með leik sínum tekur hljómsveitin upp þráðinn og gefur honum tækifæri til að safna kröftum um stundarsakir.

Þessi lýsing á ekki við um píanókonsert Daníels Bjarnasonar (f. 1979), Processions, sem tónskáldið samdi sérstaklega að beiðni Víkings Heiðars Ólafssonar sem frumflutti verkið fyrir rétt rúmum áratug. Víkingur bað tónskáldið um að fá nóg að gera og hann fékk ósk sína svo sannarlega uppfyllta: Í verkinu fær einleikarinn í mesta lagi fáeina takta hér og þar til að kasta mæðinni. Þótt tónmál Daníels sé nútímalegt er rithátturinn fyrir píanó innblásinn af tónlist eldri tíma. Chopin og Rakhmanínov koma upp í hugann, sá síðarnefndi bæði í hnausþykkum hljómum sem og kliðmjúkum köflum sem stundum hljóma inn á milli.

Fyrsti þáttur (In medias res eða Í miðjum klíðum) er til skiptis kröftugur og ljóðrænn. Sama má segja um miðkaflann (Spindrift eða Sjódrif) sem hefst og lýkur með einlægum kóral eða sálmalagi, ekki ósvipað því sem finna má í þriðja píanókonserti Bartóks. Þriðji kaflinn byggir á slagverkshryn sem magnast upp, breiðist um hljómsveitina og rennur saman við stöðugt kraftmeiri tónarunur einleikarans. Þær kröfur sem hér eru gerðar til Víkings réttlæta fyllilega ensku yfirskriftina Red-handed, sem almennt mætti þýða á íslensku með orðinu „glóðvolgur“ (sbr. að vera gripinn glóðvolgur) en hefur hér bókstaflegri merkingu. Engan þarf að undra þótt hendur einleikarans roðni af þess konar spilamennsku sem hér er krafist.