EN

Dmítríj Shostakovitsj: Sinfónía nr. 5

Sjaldan hefur nokkurt tónskáld átt jafn mikið undir viðtökum einnar tónsmíðar og þegar fimmta sinfónía Dímítríj Shostakovitsj (1906–1975) var flutt í fyrsta sinn í Leníngrad 21. nóvember 1937. Ráðamenn höfðu fylgst grannt með vandræðabarni sovéskrar tónlistar í tæp tvö ár, allt frá því að Jósef Stalín sá hina geysivinsælu óperu Shostakovitsj, Lafði Makbeð frá Mtsensk, 28. janúar 1936. Hann gekk út í miðri sýningu, og á einni nóttu varð ferill Shostakovitsj að engu. Í Prövdu, málgagni kommúnistaflokksins, birtist nafnlaus leiðaragrein, sem talið er að Stalín hafi haft hönd í bagga með að semja: „Óreiða í stað tónlistar“. Greinin er miskunnarlaus árás á Shostakovitsj og tónlist hans, og hún jafngilti opinberri fordæmingu. 

Í kjölfar árásarinnar í Prövdu var Shostakovitsj undir stöðugu eftirliti og þess gætt að allt sem frá honum kæmi stæðist kröfur flokksins. Í desember 1936 var honum var gert að draga hina rixavöxnu og framúrstefnulegu fjórðu sinfóníu sína til baka, aðeins fáeinum dögum fyrir áætlaðan frumflutning. Hálfu ári síðar, í júlí 1937, var fimmta sinfónían tilbúin. Shostakovitsj vissi vel að örlög hans gætu ráðist af þessu eina verki, og þegar hann kallaði sinfóníuna „listrænt svar sovésks listamanns við réttmætri gagnrýni“ var hann eingöngu að segja yfirvöldum það sem þau vildu heyra.  

En ekki er allt sem sýnist. Fyrstu þrír kaflar verksins eru allir hádramatískir, hver á sinn hátt, og enginn þeirra í sjálfu sér dæmi um þá glaðværu verkamannamúsík sem stjórnvöld lögð mest kapp á að fá. Strax frá afgerandi upphafshendingum fyrsta þáttar er ljóst að tónskáldinu er mikið niðri fyrir. Aðalstef kaflans eru tregafull og oft bregður fyrir nístandi sársauka. Þegar nokkuð er liðið á kaflann breytir tónlistin nokkuð um svip og brýst út í allsherjar hersýningu með lúðrum og sneriltrommu. Tónlistin verður örvæntingarfyllri eftir því sem á líður, og þegar upphafsstefið snýr aftur ríkir algjör ringulreið. 

Í öðrum kafla býður Shostakovitsj hlustandanum upp í groddalegan dans. Tónlistin er ýmist kaldhæðin eða ruddaleg, hvort sem um ræðir draugalegan vals eða grobbinn hornaþyt með dynjandi trumbuslætti. Þriðji kaflinn er sorgaróður. Hægir, þykkir strengjahljómarnir tjá ekki sorg eins manns, heldur heillar þjóðar. Tréblásarar, harpa og selesta bætast smám saman við hljóðfærahópinn, og eftir því sem líður á kaflann magnast upp sterk alda tilfinninga og tjáningar. Hér er sagt frá einhverju miklu og stóru, sem snertir okkur öll.

Það er ekki fyrr en í lokaþættinum sem tekur að rofa til, og þó ekki nærri strax. Kaflinn hefst með miklum hamagangi. Fyrsta stefið er stormasamt og æðir áfram, stundum allt að því stjórnlaust. Smám saman breytir tónlistin þó um svip. Lúðrarnir bætast við, og fyrr en varir er yfirbragðið bæði tignarlegt og skínandi bjart, eins og nú hafi verið sigrast á einhverjum óskilgreindum erfiðleikum eða fjandmanni. Það var einmitt hér sem yfirvöld töldu sig heyra hina sönnu merkingu fimmtu sinfóníunnar: ráðvillta vandræðabarnið hefur loks séð ljósið og semur glaðværa tónlist sem höfðar til alþýðunnar. Þó hafa margir bent á að síðustu blaðsíðurnar eru ekki jafnglaðlegar og ætla mætti, heldur eru þær keyrðar áfram af ógnvænlegum krafti. Meðan málmblásarar leikja hetjumúsík eins og þeir eigi lífið að leysa hamast strengir, tréblásarar og píanó á sömu nótunni 252 sinnum. Sigurgleðin er fölsk; undir niðri býr ógn og þvingun.  

Fræðimenn hafa nærri undantekningarlaust látið í ljós efasemdir um að „endurminningabók“ Shostakovitsj, Testimony, sem Solomon Volkov setti saman og gaf út 1979, endurspegli í raun skoðanir og hugsanir tónskáldsins. Þó er oft vitnað í bókina þegar kemur að lýsingu höfundarins á lokakafla verksins, sem er bæði eftirminnileg og trúverðug í sjálfu sér: „Ég held að það sé augljóst hvað er á seyði í fimmtu sinfóníunni. Fögnuðurinn er þvingaður, hann verður til af ógn, eins og í Boris Godunov [óperu Músorgskíjs]. Það er eins og einhver berji þig með kylfu og segi: „Þú átt að fagna, þú átt að fagna“, og þú stendur skjálfandi á fætur og gengur burt muldrandi „Ég á að fagna, ég á að fagna“. Hvers konar sigur er það? Sá sem ekki heyrir þetta hlýtur að vera algjör fáviti“. Með fimmtu sinfóníunni fann Shostakovitsj loks hinn vandrataða meðalveg. Hann hafði samið tónverk sem féll yfirvöldum í geð en var eigi að síður sönn lýsing á þeim nöturlega veruleika sem hann og milljónir annarra bjuggu við.