EN

Dmítríj Shostakovitsj: Fiðlukonsert nr. 1

Tónskáld Sovétríkjanna áttu ekki sjö dagana sæla á meðan ofsóknir Stalíns gengu yfir lönd og lýð. Dmitríj Sjostakovitsj (1906–1975) var meðal þeirra sem fékk hvað harðasta útreið; hann var á 30. aldursári þegar Pravda, málgagn Kommúnistaflokksins, birti hverja skammargreinina á fætur annarri um óperu hans, Lafði Makbeð frá Mtsensk-héraði, eftir að Stalín hafði látið svo lítið að sjá sig á sýningu og gengið út í miðju verki sótrauður af bræði. Allt frá árinu 1936 var tónsmíðaferill Sjostakovitsj átakanlegur línudans; hann var ýmist tekinn á teppið og verk hans sett á svartan lista, eða honum var hampað fyrir „iðrunarverk“ eins og fimmtu sinfóníuna, sem hann kallaði sjálfur „Svar sovésks listamanns við réttmætri gagnrýni.“

Þegar kom að því að halda tónskáldum á flokkslínunni átti Stalín dyggan varðhund í manni að nafni Andrei Zhdanov, sem fór með málefni lista og menningar. Í janúar 1948 kallaði Zhdanov til fundar í Kreml þar sem helstu tónskáldum þjóðarinnar var lesinn pistillinn. Þau voru minnt á að „gríðarleg átök“ ættu sér stað innan sovéskrar tónsköpunar, þar sem berðust um athygli og yfirráð „heilbrigð og framsækin“ list sem byggði á þjóðlegum arfi og ætti aðdáun alþýðunnar ósvikna, og „formalismi“, stíll sem væri alþýðunni óskiljanlegur og höfðaði einungis til „fámennrar klíku fagurfræðinga“, eins og það var orðað. Sjostakovitsj ávarpaði samkunduna og reyndi að bera blak af sér og kollegum sínum, en það bætti ekki úr skák. Þann 10. febrúar 1948 birtist harðorð greinargerð floksins þar sem mörg helstu tónskáld þjóðarinnar voru sökuð um „formalistískar afskræmingar og and-lýðræðisleg viðhorf“ í listsköpun sinni. Þeirra á meðal voru Sjostakovitsj, Prokofíev, Katsjatúrían og Míaskovskíj.

Ekki þurfti að spyrja að afleiðingunum. Sjostakovitsj var sagt upp störfum við báða tónlistarháskólana þar sem hann hafði sinnt kennslu um árabil, í Moskvu og Leníngrad. Á opinberum bannlista stjórnvalda var að finna hvert verk hans á fætur öðru: sinfóníurnar nr. 6, 8 og 9, og auk þess eina verkið í konsertformi sem Sjostakovitsj hafði samið fram til þessa, píanókonsertinn op. 35 frá árinu 1933.

Þegar þessi ósköp dundu yfir var hann þegar farinn að semja fiðlukonsert, þann fyrri af tveimur, innblásinn af tónleikaröð sem fiðlusnillingurinn David Oistrakh hélt um þetta leyti og bar yfirskriftina „Þróun fiðlutónlistar“. En í slíku umhverfi ógnar og ótta átti kraftmikill og opinskár fiðlukonsert hvergi heima. Partítúrinn fór beint í skúffuna og lá þar í sjö ár; sömu örlög biðu lagaflokksins Úr Gyðingaljóðum sem varð til um svipað leyti. Næstu árin einbeitti Sjostakovitsj sér að gerð kvikmyndatónlistar – hann samdi músík fyrir sjö myndir á fimm árum – og til að hreinsa orðspor sitt samdi hann þjóðlega áróðursmúsík eins og Skógarsöng, kantötu fyrir tenór, bassa, risakór og hljómsveit, við texta sem ráðamenn höfðu lagt blessun sína yfir.

Að sjö árum liðnum – og Jósef Stalín látnum – var hægt að huga að frumflutningi. Tileinkunina hlaut Oistrakh, sem frumflutti verkið í Leníngrad 9. október 1955 með Jevgéníj Mravinskíj við stjórnvölinn. Frumflutningurinn þótti takast með eindæmum vel og Oistrakh var himinlifandi. Hann skrifaði vini sínum skömmu fyrir flutninginn: „Það er fyrst nú sem ég geri mér ljóst að þetta er stórfenglegt verk; það á bæði hug minn og hjarta.“

Konsertinn er stórt og metnaðarfullt verk, í fjórum þáttum og tekur um 35 mínútur í flutningi. Hljóðfæravalið er líka óvenjulegt: Sjostakovitsj notar hvorki trompeta né básúnur, og þannig fær verkið dekkra og dempaðra yfirbragð en ella. Fyrsti þáttur er íhugult næturljóð; fiðlan leikur breiðar hendingar og yfirbragðið er fremur drungalegt þótt stöku sinnum bregði fyrir bjartari hljómum. Scherzóið á margt sameiginlegt með samnefndum þætti í 10. sinfóníu Sjostakovitsj, sem tónskáldið á að hafa sagt að væri mynd af Stalín í tónum. Fiðlan býður upp í hraðan og groddalegan dans, tónlistin á það til að afskræmast og hápunkti nær kaflinn þegar við bætist sílafónn, sem í tónlist 19. aldar var oft látinn tákna dansandi beinagrind dauðans. Eins og í allmörgum verkum sínum frá þessu skeiði notar Sjostakovitsj músíkalska undirskrift sína – D-S [Es]-C-H – til að gefa tónlistinni persónulegan og ögrandi blæ; sama leikinn lék hann í sinfóníum nr. 10 og 15, og í strengjakvartett nr. 8, svo aðeins séu nefnd þekktustu dæmin.

Þriðji kaflinn er tilfinningalegur miðpunktur verksins, passacaglia, eða tilbrigði yfir síendurtekna bassalínu. Þessi tónlist var fest á blað þegar verstu ofsóknir Zdanovs gengu yfir árið 1948, og ekki var þetta í fyrsta sinn sem tónskáldið sótti í gömul form barokktímans til að ljá tónlist sinni dýpt og tilfinningalegt vægi. Það sama hafði hann gert í píanótríói sínu nr. 2, sem hann samdi í miðri seinni heimsstyrjöldinni og sem einnig hefur áhrifamikla og átakanlega passacagliu sem þriðja þátt af fjórum. Þátturinn leiðir inn í langa einleikskadensu, en að henni lokinni snýr lokakaflinn öllu upp í kaldhæðnislegt grín enn eina ferðina. Hér fer einleikarinn á kostum í tilþrifamiklu glæsispili, og endurkoma passacagliustefsins myndar hápunkt þessa magnþrungna verks.