EN

Dmítríj Shostakovitsj: Sellókonsert nr. 1

Sellósnillingurinn Mstislav Rostropovitsj var víðfrægur ekki aðeins fyrir leik sinn heldur einnig fyrir það hversu fljótur hann var að læra nýja tónlist. Ekki veitti af, því að hann pantaði og frumflutti hundruð verka á sínum langa ferli og lék nýja sellókonserta langt fram á áttræðisaldur. Sjaldan tók hann þó á honum stóra sínum eins og haustið 1959 þegar Dmítríj Shostakovitsj hafði samið fyrir hann sinn fyrsta sellókonsert. Rostropovitsj fékk nóturnar afhentar 2. ágúst, lærði verkið utanað á fjórum dögum og lék það að svo búnu fyrir tónskáldið með píanói. Opinber frumflutningur fór svo fram í Leníngrad tveimur mánuðum síðar. Þar með hafði draumur sovéska sellósnillingsins loksins ræst; Rostropovitsj hafði í fjölda ára óskað sér þess að Shostakovitsj semdi handa sér konsert.

Árið 1959 var Nikita Krústsjov, aðalritari kommúnistaflokksins, tekinn að bæta fyrir þær svívirðingar sem dunið höfðu á sovéskum tónskáldum á Stalínstímanum. Þó er ekki að sjá mikla breytingu á tónlistinni sem Shostakovitsj samdi frá því sem áður var. Fyrri sellókonsert hans – sá síðari fylgdi í kjölfarið árið 1966 – einkennist af blöndu trega, ógnar og kaldhæðni rétt eins og mörg eldri verk hans. Fyrsti þáttur er byggður á stefi sem heyrist strax í upphafi, kraftmikið og spennuþrungið. Stefið minnir á annað fjögurra tóna stef, D-S-C-H, sem Shostakovitsj notaði margoft í verkum sínum sem eins konar undirskrift í tónum, enda er stafina að finna í nafni hans eins og það er skrifað upp á þýsku. Einleikshorn fær stórt hlutverk og sama má segja um síðari kaflana, dúettar horns og sellós eru meðal þess eftirminnilegasta sem fyrir eyru ber í þessu verki.

Annar þáttur er hægur og blandinn trega. Sellóið vísar til rússneskrar þjóðvísu og einnig má greina endurminningu um fjögurra tóna stefið úr fyrsta kafla. Shostakovitsj byggir upp magnþrunginn hápunkt sem minnir á sterkar ástríðurnar í óperunni Lafði Makbeð frá Mtsensk, en skyndilega breytir tónlistin um svip og sellóið og selestan taka höndum saman í töfrandi yfirtónaleik. Þriðji þáttur er löng einleikskadensa, íhugul í fyrstu en fær síðan ákveðnari blæ og leiðir beint inn í lokakaflann sem er hraður dans. Stutt hending sem strengir og blásarar þeyta á milli sín er sótt í georgíska þjóðlagið Suliko, sem var uppáhaldssöngur Stalíns. Rostropovitsj minntist þess að hann hefði sjálfur ekki tekið eftir þessu óvænta bergmáli fyrr en tónskáldið sjálft benti honum á það og brosti kankvíslega. Kolsvartri kímnigáfunni varð Shostakovitsj að halda rétt undir yfirborðinu ef ekki átti illa að fara.