EN

Dmítríj Shostakovitsj: Sinfónía nr. 9

Dmítríj Shostakovitsj (1906-1975) samdi 15 sinfóníur og má segja að þessar tónsmíðar endurspegli tíðarandann í meira mæli en tónsmíðar nokkurs annars samtímatónskálds. Sinfóníurnar voru persónulegt svar tónskáldsins við ytri samfélagslegum þáttum, pólitík og menningu sem eru á stundum innan sömu tónsmíðar bæði styrk- og veikleikar hennar. „Hann hlustaði á hjartslátt þjóðarinnar og heyrði voldugan söng hennar“ skrifaði rithöfundurinn Alexei Tolstoi um Shostakovitsj. Hann var sem listamaður ákaflega hæfileikaríkur, vann hratt, bjó yfir miklum drifkrafti og var afdráttarlaus í list sinni. Hann hafði góða listræna yfirsýn og vann oft og tíðum að tónverkum sínum í lotum og hætti ekki fyrr en hann sá fyrir endann á þeim. Hann samdi áttundu sinfóníuna á 40 dögum og hæga þáttinn í þeirri fimmtu samdi hann á aðeins þremur dögum. Vinnutaktur af þessu tagi skilaði tónskáldinu ekki einungis gæðum heldur einnig misjafnri listrænni útkomu. 

Shostakovitsj var sannkallað byltingarbarn og hann sagði sjálfur að hann hefði mætt októberbyltingunni á götu úti. Hann tók sér Beethoven til fyrirmyndar og sagði hann vera fyrirrennara byltingarhreyfingarinnar: „Hetjulegur, kröftugur og glaður“. Á meðal æskuverka Shostakovitsj eru Byltingarsinfónían og Jarðarfararmars til minningar um fallnar byltingarhetjur. Hann tileinkaði aðra sinfóníu sína októberbyltingunni og þriðja sinfónían ber yfirskriftina fyrsti maí. 

Níunda sinfónían er styst og léttust áheyrnar af síðari sinfóníum tónskáldsins sem kom nokkuð á óvart þar sem búist var við því að árið 1945 kæmi Shostakovitsj fram með stóra sigursinfóníu. Sinfónían var samin á stuttum tíma að sumarlagi og ruglaði léttleiki hennar rússneska ráðamenn eitthvað í rýminu. Verkið minnir frekar á Klassísku sinfóníuna eftir Prokofíev en nokkra aðra fyrri sinfóníu tónskáldsins sjálfs og þar sem verkið er fullt af fjöri, gamni og óvæntum uppátækjum má segja að það sé virðingarvottur við Haydn. Níunda sinfónía Shostakovitsj er líkt og fyrirrennari hennar í fimm þáttum þar sem lokaþættirnir þrír eru leiknir án hlés.

Það er ekki nema von að þeir sem komu til að hlusta á hetjuhljómhviðu hafi orðið fyrir vonbrigðum með fyrsta þátt sinfóníunnar. Þátturinn er fullur af léttleika, leikandi spilamennsku strengjanna í upphafsstefinu og hvikum einleiksstrófum tréblásaranna. Fyrsti þátturinn er glaðvær og hetjudýrkunin órafjarri. Tveggja tóna mótíf sem heyrist í básúnunum truflar framgöngu kaflans sí og æ á hnyttinn hátt og hafa gárungar nefnt þetta „Stalín-stefið“ sem ádeilu Shostakovitsj á yfirboðara sinn. Tveggja tóna mótífið er í raun upphaf annars stefs, stefs piccoloflautunnar sem á endanum er leikið af konsertmeistara hljómsveitarinnar. 

Annar þátturinn hefst á hjartnæmu klarínettusólói og ekki líður á löngu þar til fleiri tréblásturshljóðfæri bætast í hópinn. Annað stef þáttarins er leikið af strengjum og er yfirbragðið dökkt og drungalegt, eins konar valse triste, þar sem uppbygging laglínunnar ýtir undir hik og efa. 

Lokaþættirnir þrír eru leiknir án hlés en stefjaefni þeirra er skýrt og afmarkað. Í Presto-þættinum eru stef og hendingar sem ferðast hratt yfir í allri hljómsveitinni. Trompetinn leikur glæsilegt einleiksstef en skyndilega hægir á allri hreyfingu þáttarins og lúðraþytur málmblásara í upphafi Largo-kaflans gefur til kynna að eitthvað merkilegt sé í uppsiglingu; sjálfshugull einleikur fagottsins mætir hlustandanum, sem vissulega kemur á óvart, en á sér ef til vill dýpri og duldari merkingu. Fagottið á aftur leik í upphafi lokaþáttarins, Allegretto, með gamansamri hendingu. Léttleiki upphafsþáttarins snýr aftur en í stað tilfinningaþrungins hápunkts brýst tónlistin út í eintómum fagnaðarlátum, með alvarlegri undirtóni, þar sem hetjustemningin er víðsfjarri. 

Nokkur bið var á því að Shostakovitsj kæmi fram með 10. sinfóníuna, eða átta ár. Það má annars vegar rekja til aukins áhuga Shostakovitsj á strengjakvartettum og hins vegar til slæmrar útreiðar sem sinfóníur nr. 8 og 9. fengu hjá miðstjórn kommúnistaflokksins.