EN

Dmitríj Sjostakovítsj: Sellókonsert nr. 1, 1. kafli, Allegretto

Sellóleikarinn Mstislav Rostropovítsj var mikill aðdáandi tónlistar Sjostakovítsj og gamall nemandi hans úr Tónlistarháskólanum í Moskvu. Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar léku þeir oft saman kammertónlist en Sjostakovítsj var framúrskarandi píanóleikari. Rostropovitsj langaði að biðja Sjostakovítsj að skrifa fyrir sig einleikskonsert og auðga þannig þá flóru verka sem til væru fyrir hljóðfærið en var of háttvís til þess að falast beinlínis eftir verkinu við tónskáldið. Eitt sinn mun hann hafa hert upp hugann og spurt eiginkonu Sjostakovítsj, Ninu Vasilíevnu, hvernig best væri að bera sig að við að fá Sjostakovítsj til að semja fyrir sig konsert, en ekki stóð á ráðleggingum frá henni: „Þú mátt ekki minnast á þetta við hann einu orði.“ Eins ótrúlega og það kann að hljóma hlýddi Rostropovítsj þessum ráðum og reyndust þau afar heilladrjúg, því árið 1959 barst honum fyrirvaralaus sending frá Sjostakovítsj: glænýr sellókonsert. Rostropovich beið ekki boðanna heldur lærði verkið á aðeins fjórum dögum. Verkið gerir miklar kröfur til einleikarans. Fyrsti kaflinn er kraftmikill og háðskur – en jafnframt innilegur í sampili einleikara og hljómsveitar. Sjostakovítsj merkir sér einnig verkið á sinn einstaka hátt, með fjögurra nótna stefi sem hann byggir á upphafsstöfum sínum eins og þeir koma fyrir í þýskum rithætti nafnsins: D, es, c, h.