EN

Doreen Carwithen: Bishop Rock Overture

Doreen Carwithen (1922–2003) var fædd í Buckinghamskíri og móðir hennar var tónlistarkennari. Hún var fjögurra ára gömul þegar hún hóf að læra að píanó og fiðlu, og hóf að semja tónlist sextán ára. Þremur árum síðar hlaut hún inngöngu í Royal Academy of Music, þar sem hún lék á selló og lærði tónsmíðar hjá William Alwyn, sem síðar varð eiginmaður hennar. Hún kenndi sjálf tónsmíðar við Royal Academy of Music síðar á ævinni. 

Doreen Carwithen var meðal fyrstu nemenda á nýrri braut kvikmyndatónlistar við Royal Academy of Music og samdi síðar tónlist við um 30 breskar kvikmyndir. Meðal þeirra má nefna Harvest from the Wilderness (1948) og The Stranger Left No Card (1952) auk þess sem hún samdi tónlist við heimildarmynd um krýningu Elísabetar II. Bretadrottningar. Carwithen samdi margs konar hljómsveitarverk, meðal annars konsert fyrir píanó og strengi (1948) og tvo strengjakvartetta. Verk hennar lágu um skeið í gleymsku en hafa undanfarin ár hlotið verðskuldaða athygli á ný. 

Forleikurinn Bishop Rock er innblásinn af „Biskupskletti“, litlu skeri við suðurodda Cornwall á Englandi þar sem ekki er pláss fyrir nema einn vita sem lýsir sæfarendum leið. Samkvæmt lýsingu tónskáldsins er forleikurinn „innblásinn af vitanum og lýsir Bishop Rock bæði í stormi og blíðviðri“. Tónlistin er kraftmikil í fyrstu, á að lýsa hafróti við vitann, síðan færist ró yfir en undir lokin hljómar upphafsstefið enn á ný.