EN

Edvard Grieg: Píanókonsert

Norska tónskáldið Edvard Grieg (1843-1907) hóf feril sinn sem píanóleikari og þótti ríkum tónlistargáfum gæddur. Grieg átti ekki langt að sækja hæfileika sína en móðir hans var ágætur píanóleikari og kenndi syni sínum frá 6 ára að aldri. Er Grieg var 15 ára gamall var afráðið að hann skyldi halda utan til frekara náms og að ráði tónskáldsins og fiðluleikarans Ole Bull, sem var fjölskylduvinur, hélt Grieg til Leipzig þar sem hann nam við tónlistarháskólann. 

Rómantíska tímabil tónlistarsögunnar var í hámarki og andi Schumanns, Mendelssohns og annarra tónskálda sveif yfir vötnum. Fyrstu tónverk Griegs bera þess skýr merki. Þegar Grieg sneri aftur heim til Noregs varð viðsnúningur á tónsmíðastíl hans. Grieg ólst upp á millistéttarheimili og þekkti í raun lítið til alþýðutónlistar í Noregi. Nú tókust kynni með honum, Ole Bull og ungu tónskáldi sem hét Rikard Nordraak. Bull og Nordraak voru þeirrar skoðunar að norsk tónskáld skyldu gefa tónlistararfi þjóðar sinnar gaum og reyna að skapa norskan tónsmíðastíl. Grieg heillaðist af þessari hugmyndafræði sem á sér reyndar hliðstæður víða í Evrópu. 

Píanókonsertinn í a-moll frá árinu 1868 er fyrsta stóra tónsmíðin þar sem Grieg sækir innblástur í norska alþýðutónlist. Konsertinn sló í gegn strax við frumflutning og hefur allar götur síðan verið langvinsælasta tónverk Griegs. Þrátt fyrir norsku áhrifin er þessi eini konsert sem Grieg samdi einnig afar rómantískur að gerð. Hann kallast að mörgu leyti á við píanókonsert Schumanns frá árinu 1840 en báðir eru konsertarnir í a-moll og upphaf beggja er ansi bratt. Konsert Griegs er í hefðbundnu formi, hratthægt-hratt, og lýrísk náðargáfa Griegs nýtur sín til fulls.