EN

Edvard Grieg: Píanókonsert

Píanókonsert Edvard Grieg (1843-1907) var frumfluttur í apríl 1869 fyrir troðfullum áheyrendasal Casino-leikhússins í Kaupmannahöfn. Það var eftirvænting í loftinu; í dönsku höfuðborginni hafði kvisast út að tónleikagestir mættu eiga eitthvað alveg sérstakt í vændum, nýtt, ferskt og frumlegt. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, strax að lokinni fyrstu einleikskadensunni brutust út gríðarleg fagnaðarlæti áheyrenda sem héldu áfram að láta hrifningu sína í ljós í lok hvers þáttar með bravóhrópum og lófataki!

Grieg var því miður fjarri góðu gamni umrætt kvöld vegna annarra tónlistarskuldbindinga heima í Noregi en konsertinn hafði hann lokið við ári áður. Hann var 26 ára gamall þegar hér var komið sögu, búsettur í Kristianíu (nú Osló) ásamt eiginkonu sinni til tveggja ára, sópransöngkonunni Ninu Hagerup. Að baki voru mikilvæg mótunarár í bæði Leipzig og Kaupmannahöfn. Á árunum 1858 – 1862 nam Grieg við Konservatoríuna í Leipzig þaðan sem hann útskrifaðist með láði. Honum leiddist hins vegar skólinn, átti síðar eftir að tala um að námið hefði verið staglkennt, þurrt og ópersónulegt. Hvað sem því leið naut ungi tónsmíðaneminn blómlegs tónlistarlífsins í Weimar, þar sótti hann Wagner-óperur og kynntist nýrri tónlist í flutningi marga af eftirsóttustu einleikurum álfunnar.

Hafi námið í Leipzig verið niðurdrepandi kvað við nýjan tón í Kaupmannahöfn en þar settist Grieg að árið 1863 og dvaldi um þriggja ára skeið. Það var á þeim árum og í gegnum kynnin af norska tónskáldinu Rikard Nordraak sem heimur norskrar þjóðlagatónlistar tók að opnast tónskáldinu unga en Nordraak hvatti Grieg óspart áfram til að kanna þær lendur. Grieg lagðist í rannsóknir og grúsk á þjóðlagatónlist heimalandsins; hljómagangi og stefjaefni, blæbrigðum og takti, dönsum, laglínum, hljómi harðangursfiðlunnar og allt þetta varð honum innblástur og næring fyrir sitt persónulega og einstaka tónmál.

Veganestið frá Leipzig og Kaupmannahöfn má greina í píanókonserti Griegs en þar renna á áhrifamikinn hátt saman þýsk rómantík og fersk og frumleg notkun á norskri þjóðlagatónlist. Upphaf verksins þykir um margt minna á píanókonsert Róberts Schumanns sem var eitt þeirra verka sem Grieg fékk að kynnast á námsárunum í Leipzig, á tónleikum með Gewandhaus-hljómsveitinni og Clöru Schumann. Báðir konsertarnir hefjast með hvelli í hljómsveit áður en píanóleikarinn kveður sér hljóðs með kraftmikilli og hnígandi einleiksstrófu, hljómsveitin kynnir svo angurvært stef til sögunnar sem einleikarinn tekur undir í glæsilegri úrvinnslu. Fleiri hliðstæður má greina í konsertunum tveimur, bæði eru verkin til dæmis í a-moll en sérkennin í konserti Griegs eru engu að síðu mun fleiri, ævintýralegur danshrynur og sérstætt tónmálið. Strax í upphafstöktum einleikarans hljómar stef sem einkennist af hnígandi lítilli tvíund og stórri þríund, tónasasamsetning sem má heyra í fjölmörgum seinni verkum Grieg og er stundum nefnt Grieg-mótívið byggir á norskri þjóðlagahefð og í lokaþættinum má heyra kraftmikinn danstaktinn úr norskum Halling-þjóðdönsum.

Þótt píanókonsertinum hafi verið tekið með kostum og kynjum í Kaupmannahöfn árið 1869 og farið sigurför um Evrópu og Bandaríkin strax í kjölfarið átti Grieg eftir að fínpússa, breyta og koma margsinnis að endurskoðun verksins með tilliti til blæbrigða og áferðar; skipta túbu í upphaflegri gerð út fyrir básúnu, bæta tveimur frönskum hornum við þau tvö sem fyrir voru, láta sellóum eftir draumkennt stef sem trompettar blésu í upphafsútgáfu verksins og fleira mætti tína til. Síðustu breytingarnar á konsertinum gerði Grieg einungis örfáum vikum fyrir andlát sitt 1907 og rak þannig smiðshöggið á þá endanlegu útgáfu píanókonsertins sem við þekkjum nú.

Grieg átti ekki eftir að semja fleiri einleikskonserta eða stór sinfónísk verk um ævina. Hans sjálfstæða og persónulega tónmál tók á hinn bóginn að streyma áfram í litríkum tónaljóðum fyrir leikhúsið og meistaralega meitluðum, ljóðrænum smáverkum fyrir píanóið. Sjálfur orðaði Grieg það á þann veg að í stað háreistra helgidóma og hofa sem Bach og Beethoven hefðu reist í tónlist sinni hefði hann viljað skapa notaleg hýbýli þar sem fólk væri glatt og sælt og liði eins og heima hjá sér. Og kannski megi segja að fyrsti og eini píanókonsert norska tónskáldsins sameini einmitt þetta tvennt –hlýju, nánd og innileika í tilkomumiklum glæsileika.