EN

Emilie Mayer: Sinfónía nr. 5

Hin þýska Emilie Mayer (1812–1883) er eitt hinna mörgu kventónskálda sögunnar sem gleymdust nær algjörlega svo áratugum skipti. Hún átti óvenjulegan feril, hóf til dæmis ekki formlegt tónsmíðanám fyrr en hún var nærri þrítug, hjá Carl Loewe sem var eitt fremsta sönglagaskáld Þýskalands í þá daga. Þá hafði hún flust til Stettin (nú Szczecin í Póllandi) frá heimabænum Friedland, þar sem faðir hennar var apótekari bæjarins. Það var ekki fyrr en eftir lát hans árið 1840 sem hún fór að sinna tónlistinni af fullum krafti. 

Mayer fluttist til Berlínar árið 1847 og hélt áfram tónsmíðanámi hjá Adolph Bernhard Marx, sem var einn fremsti tónfræðingur Þýskalands í þá daga. Á árunum í Berlín samdi hún nýja sinfóníu svo að segja á hverju ári og voru þær frumfluttar í Konunglega hirðleikhúsinu (sem nú er kallað Konzerthaus) við góðar undirtektir. Alls samdi hún átta sinfóníur, þrátt fyrir að almenn skoðun í karllægum tónlistarheimi 19. aldar væri sú að konur gætu ekki valdið svo stórum tónlistarformum. Hún samdi líka ógrynni af kammertónlist en snerti varla á þeim greinum tónlistarinnar sem þóttu hæfa konum best í þá daga, eftir hana liggja aðeins fáein píanóverk og sönglög.

 Eftir að Mayer lést árið 1883 féllu tónsmíðar hennar fljótt í gleymsku og í raun er það ekki fyrr en á allra síðustu árum sem verk hennar hafa aftur hlotið brautargengi í tónleikasölum heimsins. Sinfónían í f-moll var frumflutt í Berlín árið 1862 en lá í þagnargildi í meira en heila öld eftir það, allt þar til hún hljómaði aftur á tónleikum árið 2001. Númeraröðin á sinfóníum Mayers eru nokkuð á reiki og er þessi sinfónía einnig stundum kölluð „númer 7“. Hvað sem því líður þá er tónlistin bæði kraftmikil og áhrifarík og má segja að Beethoven sé helsti áhrifavaldur hennar. Eftir ólgandi fyrsta þátt tekur við einkar fagur hægur kafli, en síðari þættirnir tveir einkennast af ákefð og spennu.