EN

Emmanuel Chabrier: España

Alexis-Emmanuel Chabrier (1841–1894) fæddist í bænum Ambert í Auvergne-héraði í Mið-Frakklandi. Hann hóf tónlistarnám sex ára gamall og fljótlega var foreldrunum bent á óvenju mikla hæfileika drengsins. En faðirinn sem var lögfræðingur var ákveðinn í að sonurinn skyldi feta í fótspor sín. Flutti fjölskyldan til Parísar þar sem Chabrier hóf laganám en hélt jafnhliða áfram námi í tónsmíðum, fiðlu- og píanóleik. Tvítugur að aldri lauk hann lögfræðiprófi og starfaði næstu nítján árin í innanríkisráðuneyti Frakklands. Chabrier naut virðingar í ráðuneytinu en ástríða hans var tónlist, samtímabókmenntir og myndlist. 

Eins og mörg frönsk tónskáld á þessum tíma var Chabrier mikill áhugamaður um tónlist Wagners. Hafði hann sem ungur maður afritað alla raddskrána af óperu Wagners Tannhäuser í því skyni að öðlast innsýn inn í sköpunarferli verksins. Í marsmánuði 1880 urðu þáttaskil í lífi Chabriers þegar hann í hópi nokkurra vina sá óperu Wagners Tristan og Isolde í München. Tónskáldið Vincent d’Indy sem var í hópnum sagði síðar að Chabrier hefði tárast undir tónlistinni og sagt eftir forleikinn: „Ég er búinn að bíða í tíu ár eftir að heyra þetta A í sellóunum“. Stuttu síðar yfirgaf Chabrier ráðuneytið og helgaði sig tónlistinni upp frá því. 

Chabrier ferðaðist til Spánar árið 1882 ásamt eiginkonu sinni Anninu og fékk þar innblástur að sínu langþekktasta verki España. Af bréfum hans (Chabrier skildi eftir sig á annað þúsund bréf ) má ráða að það sem heillaði hann mest fyrir utan tónlistina sem hann heyrði á kaffihúsum og torgum, var kynþokki spánskra dansara. Verkið samdi hann upphaflega fyrir píanó en magnaði það skömmu síðar upp í rapsódíu fyrir hljómsveit og er útfærsla hans hin glæsilegasta.

Verkalisti Chabriers er að vonum ekki langur en hann inniheldur nokkur hljómsveitarverk, píanóverk, sönglög, tvær óperettur, eina óperu og aðra ófullgerða. Sem safnari skildi Chabrier eftir sig stórt safn málverka þá óþekktra samtímamanna sinna á borð við Cézanne, Manet, Monet og Renoir að ógleymdum bókum Verlains og annarra merkra rithöfunda.