EN

Felix Mendelssohn: Draumur á Jónsmessunótt, forleikur

Tréblásarar hljómsveitarinnar spila fjóra hljóma og áheyrendur eru umsvifalaust hrifnir inn í ævintýraheim. Fiðlurnar iða og tifa, eins og næfurþunnir álfavængir. Tónskáldið er sagt hafa setið úti í garði og hlustað á haustlauf þyrlast í vindi, þaðan kom hugmyndin að blábyrjun forleiksins að Draumi á Jónsmessunótt eftir Þjóðverjann Felix Mendelssohn (1809-1947).

Mendelssohn var aðeins sautján ára 1826 þegar hann samdi forleikinn, sem ber tónlistargáfum hans og hrifnæmi ótvírætt vitni. Hann hafði nýlokið við að lesa þýska þýðingu Schlegels og Tiecks á leikriti Shakespeares og innblásinn af anda leikritsins samdi hann konsertforleik sem svo var kallaður og ber ópusnúmerið 21. Með konsertforleiknum lagði Mendelssohn drög að nýju tónlistarformi, því forleikurinn er ekki kynning á því sem koma skal í stærra verki, heldur er í honum fólgið allt leikritið. Síðar á 19. öldinni komu fram á sjónarsviðið slík tónverk þar sem bókmenntir og tónlist tengdust, í tónaljóðunum svokölluðu, sem hafa notið mikilla vinsælda.

Konsertforleikinn samdi Mendelssohn fyrir tvö píanó og æfði með systur sinni Fanny, sem var ekki síður hæfileikarík þegar kom að tónsmíðum og píanóleik, þótt ekki hafi hún fengið að blómstra til jafns við bróður sinn. Hljómsveitargerð verksins var frumflutt á tónleikum árið 1827 í Stettin sem þá tilheyrði Prússlandi. Mendelssohn lék að auki einleik á tónleikunum í píanókonserti eftir Weber og eftir hlé gekk hann til liðs við fiðludeild hljómsveitarinnar og lék með í 9. sinfóníu Beethovens. 

Árið 1842 samdi Mendelssohn leikhústónlist við Draum á Jónsmessunótt, að ósk þáverandi vinnuveitanda síns, Friðriks fjórða Prússakonungs. Í leikhústónlistinni sem ber ópusnúmerið 61 eru fjórtán þættir, en tónskáldið lét kvöldið í leikhúsinu hefjast á konsertforleiknum sem hann átti í handraðanum, þar sem í tónlistinni má greina stríðna álfa, villuráfandi elskendur, hrínandi asna og veiðihorn í dimmum skógi, svo fátt eitt sé nefnt. Og með fjórum blásarahljómum í lokin lokast svo hliðið að ævintýraheiminum.