EN

Felix Mendelssohn: Fiðlukonsert

Felix Mendelssohn (1809–1847) var 35 ára gamall þegar hann lauk við fiðlukonsertinn sem hefur verið eitt ástsælasta verk hans æ síðan. Hann var upp alinn á einu mesta menntaheimili Berlínar og snemma kom í ljós að hann var gæddur einstökum hæfileikum. Mendelssohn var eitt fjölhæfasta undrabarn allra tíma; fyrir fimmtánda afmælisdag sinn hafði pilturinn samið fimm konserta, fjórar óperur og þrettán sinfóníur fyrir strengi. Sautján ára samdi hann forleikinn fræga við Draum á Jónsmessunótt og í Berlín stýrði hann tvítugur að aldri flutningi á Matteusarpassíu Bachs sem var einn af merkisáföngum Bach-endurreisnarinnar á 19. öld.

Fiðlukonsertinn í e-moll samdi Mendelssohn fyrir Ferdinand David, sem var konsertmeistari Gewandhaus-hljómsveitarinnar í Leipzig og naut virðingar jafnt sem einleikari og kennari. Mendelssohn gat fyrst um verkið í bréfi til Davids sumarið 1838: „Mig langar að semja fiðlukonsert handa þér næsta vetur ... það er einn í e-moll sveimandi um í höfðinu, og upphafið lætur mig hreinlega ekki í friði.“ En David þurfti að bíða í sex ár enn og eftir því sem verkið tók á sig mynd fjölgaði fyrirspurnum frá tónskáldinu um hvort hitt og þetta væri mögulegt á fiðluna. Biðin var þó þess virði og flestir eru á því að tillögur Davids hafi verið mjög til bóta.

Mendelssohn kemur sér beint að efninu. Einleiksfiðlan fer á flug með upphafsstefið og síðan tekur hljómsveitin við, ólíkt því sem tíðkast í eldri konsertum þar sem hljómsveitin leikur meginstefin áður en sólistinn lætur að sér kveða. Mendelssohn er stundum legið á hálsi fyrir að hafa verið of hefðbundinn í tónsmíðum sínum, en fiðlukonsertinn sannar hið gagnstæða. Mendelssohn var vissulega „klassískur“ í besta skilningi orðsins, en hann gat einnig komið hlustendum sínum á óvart. Til dæmis er kadensan – staðurinn þar sem hljómsveitin þagnar og einleikarinn baðar sig í athyglinni um stund – á vitlausum stað miðað við það sem hefðin bauð. Yfirleitt hljómar hún undir lok þáttarins, þegar tímabært er að slá botn í kaflann með glæstri flugeldasýningu, en hér er hún staðsett í honum miðjum og leiðir tónlistina aftur á heimaslóðir; hún er ekki eingöngu skalar og skraut, heldur mikilvægur hlekkur í heildarforminu. Ekki er síður nýstárlegt hvernig Mendelssohn tengir saman alla þættina þrjá svo þeir mynda eina heild. Hægi kaflinn er eins konar ljóð án orða, og leiðir af sér stutt millispil með tregafullum fiðlutónum. Málmblásarar og pákur gefa upptakt að lokaþættinum sem er glitrandi rondó, léttstígur álfadans í „Jónsmessunætur“-stílnum sem var aðalsmerki Mendelssohns alla tíð.