EN

Felix Mendelssohn: Sinfónía nr. 4, Ítalska sinfónían

„Þetta er Ítalía! Og það sem ég hef ætíð séð fyrir mér sem mestu lífsgleði er nú orðið að veruleika sem ég nýt til hins ítrasta.“ Svo hljóðar upphaf bréfs sem hinn tuttugu og eins árs gamli Mendelssohn skrifaði fjölskyldu sinni frá Feneyjum í október 1830. Hann átti vissulega foreldrum sínum þökk að gjalda en ríkidæmi þeirra gerði honum kleift að ferðast í tvö ár um Evrópu. Fyrsti viðkomustaðurinn voru Bretlandseyjar þar sem fyrstu fræjum að Skosku sinfóníunni og Suðureyjaforleiknum (Fingalshellir) var sáð. Nú lá leiðin um Feneyjar, Flórens, Róm, Napólí og til baka til Genúa og Mílanó. Á ferðalaginu sem stóð fram í júlí 1831 hóf Mendelssohn vinnu við Ítölsku sinfóníuna af miklum eldmóði. 

Í bréfi til Fannyar systur sinnar skrifar hann: „Ítalska sinfónían er farin að taka á sig mynd. Hún verður glaðlegasta verk sem ég hef nokkurn tíma samið.“ Framhaldið á sköpunarferlinu reyndist honum samt erfitt og sagði hann síðar að í því hefði hann upplifað erfiðustu stundir lífs síns. Þann 13. mars 1833 lauk hann við sinfóníuna í Berlín og réttum tveimur mánuðum síðar var hún frumflutt í Lundúnum, að beiðni London Philharmonic Society, undir stjórn tónskáldsins sjálfs. 

Þrátt fyrir góðar viðtökur efaðist Mendelssohn um ágæti verksins og endurskoðaði í tvígang og sinfónían var ekki gefin út fyrr en fjórum árum eftir lát hans, árið 1851. Í raun er hún eldri en sinfóníurnar nr. 2 (1840) og nr. 3 (1842). Við hlustun er erfitt að ímynda sér að tónskáldið hafi við sköpun verksins glímt við ritstíflu eða séð ástæðu til að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Allt frá byrjun geislar tónlistin af lífsgleði og krafti og endurspeglar tilfinningarnar sem tónskáldið lýsti í bréfinu til fjölskyldu sinnar haustið 1830. Sól skín í heiði og hlustandinn upplifir ítalska sveit, píslargöngu, ljúfan menúett og gáskafullan, rómverskan saltarello dans.