EN

Finnur Karlsson

Harmóníkukonsert

Finnur Karlsson (f. 1988) samdi Harmóníkukonsert fyrir Jónas Ásgeir og Elju kammersveit sem frumfluttu 2020. Konsertinn er í sjö þáttum þar sem víða er leitað fanga hvað varðar hljóðuppsprettur. Bilað dótapíanó, ljúfir harmóníkuvalsar, nostalgísk poppmúsík og safaríkar tónaflækjur; allt rennur þetta saman í margslungnu og grípandi verki.

Verkið hefst með djúpri harmóníkunni sem gefur frá sér drunur og andvörp. Hljóðheimurinn er seigfljótandi og dimmur. Brátt taka pikkolóflauta og fuglablístra að flögra; við skynjum áhrifamiklar andstæður á milli djúps hljóðmassa og bjartra fuglastefja. Efniviður kaflans meðal annars sóttur í smellinn Flugvélar með Nýdönsk og Flugsöng ömmu úr Dýrunum í Hálsaskógi; lögin tvö tengjast jú bæði draumnum um flug sem er heiti þáttarins. Því fer þó fjarri að auðvelt sé að greina þessar hendingar; hér er búið að teygja efniviðinn til svo hann verður algerlega óþekkjanlegur.

Í öðrum þætti er kynntur til sögunnar angurvær lagstúfur, eins konar vals (í svífandi takti) sem á eftir að skjóta upp kollinum verkið á enda, umsnúinn og afbakaður. Lagið hljómar kunnuglega en er þó glænýtt, minnir á rætur harmóníkunnar í dansmúsík. Stefið er meginviðfangsefni milliþátta konsertsins (einn og svo, tveir og svo, þrír og svo.)

Þriðji þátturinn hefst á hnígandi tónaröð sem verður nokkurs konar viðfangsefni þáttarins sem byggir á hexatónískum tónstiga. Yfirbragðið framan af fljótandi en verður smám saman þyngra og taktfastara.

Fimmti þátturinn hefst einnig ofurvarlega á háu tónsviði; tónefniviðurinn sóttur í tónaklasa bilaðs Bontempidótahljómborðs (Draugur Bontempis). Í lokaþætti koma svo saman slitrur úr fyrri þáttum, hnígandi tónaröð, valsinn ljúfi, flögrandi pikkolóflauta og ofurviðkvæmur harmóníkutónninn í niðurlagi viðburðaríks verks.

Til stóð að konsertinn hljómaði nokkrum sinnum á tónleikaferð Elju um landið sumarið 2020 en þau áform breyttust vegna samkomutakmarkana af völdum COVIDheimsfaraldurs. Tvennir nýárstónleikar, í janúar 2021 og aftur 2022 féllu einnig niður af sömu völdum. Konsertinn hefur því aðeins hljómað einu sinni hérlendis, á tónleikum sem fram fóru í Miðgarði í Skagafirði í júlí 2020. Verkið hefur hins vegar flogið víða, var valið eitt af tónverkum ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 og er að finna á plötu Jónasar Ásgeirs, Fikta sem út kom 2022 en sú plata hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem ein af plötum ársins 2022.