EN

Florence Price: Sinfónía nr. 1

Florence Beatrice Price (1887–1953) var brautryðjendatónskáld á sínum tíma en tónlist hennar lá að mestu í gleymsku um áratuga skeið. Nú á sér þó stað allnokkur vakning um Price og verk hennar og hafa á undanförnum mánuðum birst um hana greinar bæði í The New Yorker og New York Times. Hún var fyrsta svarta konan sem naut virðingar samtímamanna sinna fyrir sinfónískar tónsmíðar og verk hennar voru leikin af helstu hljómsveitum Bandaríkjanna á sinni tíð.

Price fæddist í Little Rock í Arkansas; faðirinn var tannlæknir en móðirin tónlistarkennari og hún veitti dóttur sinni fyrstu leiðsögn í tónlist. Fyrsta tónsmíð Price kom út á prenti þegar hún var aðeins 11 ára gömul, og 14 ára hóf hún nám við New England Conservatory of Music í Boston, með píanó og orgel sem aðalfag. Þar sótti hún líka tíma í tónsmíðum og kontrapunkti, og samdi sín fyrstu tónverk. Hún kvæntist lögfræðingi og þau voru búsett í Little Rock um árabil, en eftir hrottalega múgæðisaftöku á svörtu fólki skammt frá skrifstofu eiginmannsins fluttist fjölskyldan til Chicago árið 1927 og þar tók Price upp þráðinn, sótti sér frekara nám í tónsmíðum og hljómsveitarútsetningu. Hjónabandið rann sitt skeið á enda og þá stóð hún uppi sem einstæð móðir með tvær dætur; hún vann m.a. fyrir sér með því að leika undir þöglar myndir. En metnaður hennar var meiri en svo. Sama mánuð og skilnaðurinn var lögfestur hóf hún að semja sinfóníu sína nr. 1, en smíði verksins tók alls tvö ár. Árið 1932 hreppti Price Wanamaker-verðlaunin fyrir verkið, sem í kjölfarið var frumflutt af Chicago-sinfóníunni. Það var í fyrsta sinn sem tónverk eftir svarta konu var leikið af einni af helstu sinfóníuhljómsveitum heims. Price lést úr hjartaáfalli árið 1953.

Price samdi yfir 300 tónverk, meðal annars fjórar sinfóníur, kammertónlist, fjölda sönglaga, þrjá píanókonserta og tvo fiðlukonserta. Sum verka hennar voru lengi talin týnd en fundust aftur við leit á fyrrum heimili hennar árið 2009 og hafa verið hljóðrituð í kjölfarið.

Sinfónían í e-moll er eins og flest verka Price undir áhrifum frá bandarískum þjóðlögum og trúarsöngvum svartra í Suðurríkjunum. Móderismi millistríðsáranna er víðs fjarri en áherslan fremur á breiðar, lagrænar hendingar og kraftmikinn hryn. Í fyrsta þætti má greina áhrif frá sinfóníu Dvořáks, Úr nýja heiminum, og varla er það nein tilviljun að bæði verkin deila sömu tóntegund. Annar þáttur er hægur og minnir á sálmalag. Seinni tvær þættirnir eru hraðir og þar er eins og dansinn taki völd. Í þriðja þætti sækir hún innblástur í Juba, líflegan dans sem upphaflega barst til Suðurríkjanna með þrælum frá Kongó. Í tónlistinni má greina ávæning af músík þjóðlagafiðlara og banjóspilara, en einnig kemur sleðaflauta við sögu og gefur sannarlega óvenjulegt yfirbragð.