EN

Francis Poulenc: Konsert fyrir tvö píanó

Francis Poulenc (1899-1963) samdi konsert sinn fyrir tvö píanó að beiðni bandarísks auðkýfings, Winnarettu Singer, sem öðlaðist prinsessunafnbót þegar hún giftist frönskum prinsi, Edmond de Polignac. Þau hjónin studdu með margvíslegum hætti við framgang lista og vísinda í Frakklandi, en Winnaretta var af Singer-ættinni sem efnast hafði á sölu saumavéla með sama nafni. Í rúmgóðum heimkynnum þeirra í París voru fjölmörg framúrstefnuleg tónverk frumflutt á fyrri hluta 20. aldar, samin að þeirra ósk. Konsert Poulencs fyrir tvö píanó og hljómsveit var þó umfangsmeiri en svo að hann mætti flytja í heimahúsum, þó hátt væri þar til lofts og vítt til veggja. Verkið var frumflutt í tonleikasal i Feneyjum í september 1932, við flyglana sátu Poulenc sjálfur og æskuvinur hans Jacques Février. 

Konsertinn byrjar með látum, píanóin taka á þeysisprett í hröðum staðföstum takti, nánast eins og þau hvetji hvert annað áfram gegnum strófur, laglínur og hljómahreyfingar.  Poulenc var sannkallaður meistari þegar kom að lagasmíðum og þar er konsertinn engin undantekning, nýtt stef skýtur upp kollinum í hverri beygju.  Oftar en ekki hljóma þau kunnuglega, stefin sem píanóin þjóta í gegnum, enda vitnar Poulenc óspart í önnur tónskáld sem hann hafði dálæti á. Margir sögðust greina áhrif Mozarts í konsertinum, einkum í draumkenndri hljómfegurð hæga kaflans. Poulenc gekkst fúslega við því, sagðist m.a.s. hafa verið með nótur að píanókonsertum Mozarts á flyglinum þegar hann samdi verkið. En hann lét sér ekki nægja að vitna í klassíska tónlist, í konsertinum bregður fyrir nýklassík í anda Stravinskí, þarna eru áhrif chanson-sönglaga, kabaretttónlistar, djasstónlistar og sindrandi indónesískrar gamelan-tónlistar, en Poulenc líkt og svo margir aðrir samtímamenn hans í hópi tónlistarmanna hreifst af framandlegum hljóðheimi slíkrar tónlistar, sem heyra mátti á heimssýningunni í París 1931.

Píanóleikararnir tveir spila nær óslitið gegnum allan konsertinn, málmbásarar, tréblásarar og slagverk mynda umgjörðina, strengir eru notaðir í lágmarki og stundum hljómar einungis samtal flyglanna. Ólgandi lífsfjör einkennir þetta verk sem strax hlaut góðar viðtökur.