EN

Francis Poulenc: Mannsröddin

Francis Poulenc (1899–1963) fæddist í París og var ungur að árum kominn í kynni við ýmsa fremstu listamenn borgarinnar svo sem tónskáldið Erik Satie og framúrstefnuskáldin Paul Éluard og Jean Cocteau. Hann varð strax mjög handgenginn samtímaskáldskap og átti eftir að semja tugi sönglaga, til dæmis við ljóð Éluards og Guillaumes Appollinaire, sem sýna vel næmi hans fyrir texta og hæfileika til að túlka hann í tónum. Það varð þó bið á því að hann reyndi sig við óperuformið. Fyrsta framlag hans á því sviði var gamanóperan Brjóstin á Tíresíasi (Les mamelles de Tirésias) sem byggð er á samnefndu leikriti eftir Appollinaire. Á árunum 1953–55 samdi hann svo Samræður Karmelítanna (Dialogues des Carmelites), dramatíska óperu sem fjallar um örlög hóps nunna á tímum frönsku byltingarinnar. Þar eru konur í aðalhlutverkum og sama er uppi á teningnum í þriðju og síðustu óperunni, Mannsröddinni, sem Poulenc samdi árið 1958 upp úr einþáttungi eftir vin sinn Cocteau frá árinu 1930. 

Einþáttungur Cocteaus er um leið einleikur. Eina persónan á sviðinu er kona sem talar við ástmann sinn í síma. Samband þeirra er reyndar að rakna upp og ástmaðurinn er kominn í tygi við aðra konu. Við heyrum ekki orð hans og verðum að geta okkur til um þau af viðbrögðum konunnar. Símasambandið er líka óstöðugt, símalínum slær saman, viðmælandinn skellir á, talsímavörður grípur inn í samtalið. Það gengur á ýmsu milli elskendanna (fyrrverandi?) og tónninn sveiflast allt frá hlýju og daðri yfir í reiði og ásakanir, en eftir því sem líður á verkið afhjúpast hyldjúp örvænting konunnar. Tónlistin endurspeglar allar þær mótsagnakenndu tilfinningar sem bærast með henni og birtast í orðum hennar eða því sem hún reynir að fela.

Mannsröddin var frumflutt í París í febrúar 1959 og var strax firna vel tekið. Með hlutverkið eina fór sópransöngkonan Denise Duval, vinkona og náinn samverkamaður Poulencs, en Cocteau leikstýrði og gerði leikmynd. Poulenc sagði sjálfur um verkið í aðdraganda frumflutningsins: „Það er undarlegt að það hafi fyrst verið eftir fjörutíu ára vináttu að við Jean Cocteau skyldum vinna saman. En ég held að ég hafi þurft að vera kominn með mikla reynslu til þess að geta sýnt hinni fullkomnu byggingu Mannsraddarinnar viðeigandi sóma, hún kallaði á tónlist sem væri algjör andstæða spuna. Stuttar setningar Cocteaus eru svo eðlilegar, svo mannlegar, svo hlaðnar því sem er að gerast, að ég varð að skrifa tónlistina mjög nákvæmlega út og skapa viðeigandi spennu. Það er þögn meðan þessi eina persóna hlustar á viðmælanda sinn og í tónlistinni er svo brugðist við því sem hún hefur heyrt. Ég held að ég hafi þurft að upplifa frumspekilega og andlega angistina í Samræðum Karmelítanna til að geta gert hinni óbærilegu angist manneskjunnar í texta Cocteaus viðunandi skil.“

Mannsröddin er enda meistaralega samin. Þótt lítið sé um kafla sem kenna má við aríur — miklu fremur byggist verkið á nánast samfelldu sönglesi (resitatífi) — tekst Poulenc að gera framvindu tónlistarinnar fjölbreytta og fanga inntak og einkenni textans. Hann gætir þess að hljómsveitin yfirgnæfi aldrei söngkonuna en gefur hljóðfærunum lausan tauminn þegar hlé verður á orðum hennar. Það er í hljómsveitinni sem við heyrum tilfinningarnar ólga en hljóðfærin búa líka til nokkurs konar umhverfishljóð, til dæmis símhringinguna sem kveður við nokkrum sinnum í verkinu.