EN

Franz Schubert: Rósamunda, forleikur

Franz Schubert (1797–1828) var fæddur í Vínarborg og bjó þar ævilangt. Hann er helst kunnur fyrir sönglög sín og sinfóníur, en stundum vill gleymast að hann samdi allnokkuð af tónlist fyrir leikhús, bæði óperum og tónlist við leikrit. Tónlistin þykir misjöfn að gæðum en hafa verður í huga að aðstæður voru honum síst í hag. Um þetta leyti gat enginn skákað ítalska meistaranum Rossini sem hélt Vínarbúum hugföngnum, auk þess sem ritskoðun Metternichs kanslara torveldaði alla nýsmíði í leikhúsi. Óperur Schuberts eru flestum gleymdar: Die Zwillingsbrüder (Tvíburabræðurnir), Alfonso og Estrella, Fierrabras, og þannig mætti áfram telja.

Sumarið 1820 pantaði Theater an der Wien nýja leikhústónlist hjá Schubert við leikritið Die Zauberharfe eða Töfrahörpuna eftir Georg von Hofmann. Schubert samdi 13 stykki sem hljómuðu með leikritinu, þeirra á meðal forleikinn sem hljómar hér í kvöld. Þegar forleikurinn var fyrst gefinn út á nótum löngu eftir daga Schuberts, árið 1855, var hann fyrir misskilning kenndur við leikritið Rósamundu, sem Schubert samdi tónlist við árið 1823. Þar var allt önnur upphafstónlist, en þessi nafngift festist við forleikinn eigi að síður.

Forleikur Schuberts að Töfrahörpunni/Rósamundu er prýðileg skemmtimúsík og hefur eflaust náð að létta lund leikhúsgesta áður en tjaldið var dregið frá. Eftir hægan og ábúðarmikinn inngang taka við létt og gáskafull stef, og ítalskur hreimur sumra þeirra er einmitt til marks um áhrifamátt Rossinis á Vínartónskáld um þetta leyti.