EN

Franz Schubert: Sinfónía nr. 3

Haustið 1813 stóð Franz Schubert (1797–1828) á tímamótum. Hann var sextán ára gamall, hafði lokið skyldunámi í Vínarborg, og stóð nú frammi fyrir tveimur kostum. Hann gat haldið áfram formlegri skólagöngu, eða tekið við stöðu aðstoðarkennara í skóla föður síns. Hann kaus seinni kostinn, og næstu tvö árin vann hann sem kennari, oft við kröpp kjör og erfiðar aðstæður. Hinu verður þó ekki neitað að árin 1813–15 voru einstaklega gjöful frá tónsmíðalegu sjónarmiði, og næstum ótrúleg þegar haft er í huga að Schubert var ekki nema unglingspiltur.

Þriðju sinfóníu sína samdi Schubert undir lok þessa tímabils, sumarið 1815. Hann hóf að semja fyrsta kaflann í maí 1815 en lagði hann til hliðar þar til í júlí, þegar hann lauk við sinfóníuna á ógnarhraða (hann samdi annan, þriðja og fjórða þátt á samtals fimm dögum). Þótt hún sé ekki eins stór í sniðum og sinfónía nr. 2 (sem Schubert lauk við nokkrum mánuðum fyrr) er hún sérlega þokkafull og ber að mörgu leyti einnig sterk höfundareinkenni.

Fyrsti þáttur hefst með hægum inngangi sem flæðir yfir í meginkaflann á nokkuð óvenulegan hátt. Stefin eru full af æskugleði, og virðast nokkurn veginn ósnert af þeirri dramatík sem átti eftir að setja mark sitt á fjórðu sinfóníu tónskáldsins (þá „tragísku“) innan við ári síðar. Annar kaflinn er ekki beinlínis hægur eins og hefðin býður, heldur er hann þokkafullt intermezzo, og læðist að manni sá grunur að Schubert hafi hér haft í huga sjöundu sinfóníu Beethovens (frumfl. 1813), sem hefur samsvarandi þátt á sama stað innan verksins, Allegretto rétt eins og hjá Schubert. Óvæntar áherslur setja svip sinn á fremur hraðan menúettinn, en það er í lokaþættinum sem Schubert spilar út öllum trompunum. Tónlistin þýtur hjá og minnir helst á dansinn tarantellu, með svimandi nótnamergð og kúvendingum sem stundum koma verulega á óvart.

Árni Heimir Ingólfsson