EN

Franz Schubert: Sinfónía nr. 9

Eins og að ofan er getið spannaði ævi Schumanns ekki langt tímabil en Franz Peter Schubert (1797-1828) lifði enn skemur. Hann hafði einungis eitt ár um þrítugt þegar hann lést (að öllum líkindum helsjúkur af sárasótt) í Vínarborg hinn 19. nóvember 1828, um ári eftir að Beethoven féll frá. Öfugt við til að mynda Haydn, Mozart og Beethoven sem voru aðkomumenn í Vínarborg var Schubert þar heimamaður. Þar lifði hann og starfaði alla sína tíð en raunar var hann lítt þekktur meðan hann lifði og nánast ekkert utan Vínarborgar. Hann sýndi snemma gríðarlega tónlistarhæfileika og nam í öndverðu á fiðlu og píanó hjá föður sínum og bróður. Fljótlega hóf hann nám hjá öðrum og nam um tíma hjá Salieri. Tónsmíðar voru hins vegar ótrygg vinna og Schubert lærði því til kennara og kenndi um skeið við skóla sem faðir hans rak en frá árinu 1816 og til dauðadags helgaði hann sig einvörðungu tónsmíðum og tónlistarflutningi. Schubert samdi á annað þúsund verk á örskammri ævi, þar á meðal ríflega 600 sönglög, sjö sinfóníur, ellefu píanósónötur, óperur og messur. Schubert starfaði á mörkum klassíska tímabilsins og þess rómantíska og kannski má segja að það séu einmitt sönglögin sem höfðu ekki hvað síst áhrif hljóðfæratónlist Schuberts; við heyrum syngjandi laglínur í til að mynda sinfóníunum sem mynda ljóðræna heild.

Hljóðfæratónlist Schuberts var lítið flutt á meðan hann lifði og það var ekki fyrr en á árunum eftir dauða hans að hvert meistaraverkið á fætur öðru kom í ljós. Kannski er þekktasta dæmið einmitt af 9. sinfóníunni, „hinni stóru“, sem Schumann uppgötvaði í Vínarborg árið 1838 hjá Tónlistafélaginu þar í borg (Gesellschaft der Musikfreunde). Schumann hafði eintak af verkinu með sér til Leipzig þar sem Gewandhaus-hlljómsveitin frumflutti verkið hinn 21. mars árið 1839 undir stjórn Felix Mendelssohn. Schumann, sem var mikilvirtur tónlistargagnrýnandi um sína daga, skrifaði um verkið í tímarit sitt, Neue Zeitschrift für Musik, þar sem hann hrósaði því í hástert, ekki hvað síst „himneskri lengd“ þess. En það var eitt af einkennum rómantísku stefnunnar að verk urðu lengri og viðameiri, enda tekur 9. sinfónía Schuberts tæpa klukkustund í flutningi. Sem dæmi má nefna að 9. sinfónía Schuberts telur 2.623 takta (án endurtekninga) á meðan 9. sinfónía Beethovens telur alls 2.203 takta. Hljómsveitin hjá Schubert er þó umtalsvert minni en hjá Beethoven.

Lengi framan af var talið að 9. sinfónía Schuberts hefði verið samin árið 1828, það er síðasta árið sem tónskáldið lifði. Hins vegar hefur nú komið í ljós að verkið lá fyrir í drögum sumarið 1825 og var að fullu samið ári síðar. Schubert hafði ekki efni á að láta flytja verkið og sendi Tónlistarfélaginu í Vínaborg raddskrána sem brást við með því að senda tónskáldinu lágmarksgreiðslu og stinga verkinu upp í hillu, þar sem Schumann fann það rúmum áratug síðar.

Sinfónían er í fjórum köflum. Fyrsti kaflinn (Andante – Allegro ma non-troppo – Più moto) er í sónötuformi og hefst á stefi í hornunum sem við heyrum svo tónskáldið leika sér með í gegnum kaflann og ítreka í niðurlagi (coda). Hægur annar kaflinn (Andante con moto) er tilbrigði við sónötuform og við heyrum óbóið leika gullfallegt stef í upphafi hans. Eftir dramatískan þriðja kafla (Scherzo. Allegro vivace, þ.m.t. léttleikandi Trio) heyrum við hinn volduga lokaþátt (Finale. Allegro vivace) þar sem tónskáldið bregður á leik með því að útfæra aðalstefin með mismunandi hætti.