EN

G. F. Händel: Forleikur og aríur úr Messíasi

Messías er ótvírætt kunnasta óratoría Händels. Að mörgu leyti er hún hefðbundið verk, samsett úr hljómsveitarforleik, aríum, sönglesi og kórþáttum. Þó sker hún sig úr bæði hvað varðar efni og efnistök. Flestar óratoríur Händels eru leikrænar, í þeim bregða einsöngvarar sér í tiltekin hlutverk og eiga í samskiptum sín á milli. Messías er aftur á móti ljóðræn hugleiðing um það hvernig mannkynið frelsaðist fyrir son Guðs. Í verkinu eru engar persónur, engin hlutverk. Það skiptist í þrjá hluta rétt eins og ópera og hver þeirra fjallar um afmarkað efni: fæðingu Krists, krossfestingu og upprisu. Textar eru sóttir bæði í Gamla og Nýja testamentið, mestmegnis í Kórintubréfið og spádómsbók Jesaja en einnig í guðspjöll, Davíðssálma og Jobsbók auk þess sem efni er fengið úr messubók Ensku biskupakirkjunnar.

            Hugmyndina að Messíasi átti tónelskur áhugamaður um guðfræði að nafni Charles Jennens. Hann hafði áður lagt Händel lið, orti til dæmis upp úr Samúelsbók söngtexta fyrir óratoríuna Sál. Í þetta sinn raðaði hann saman versum úr heilagri ritningu og því eru textarnir við Messías í óbundnu máli, ólíkt því sem yfirleitt tíðkast í óratoríum og óperum. Þótt ótrúlegt megi virðast brást Jennens ókvæða við þegar hann heyrði verkið í fyrsta sinn. „Messías olli mér vonbrigðum“, ritaði hann, „það var samið í of miklum flýti, og þó sagðist hann myndu verða heilt ár að semja verkið og að það yrði hið besta af öllum verkum hans. Ég mun ekki láta honum fleiri trúarlega texta í té til þess eins að verða niðurlægður með þessu móti.“ Síðar kvaðst hann vonast til þess að tónskáldið myndi sníða af verkinu helstu vankantana en að Händel væri svo „latur og þrjóskur“ að hæpið væri að stóla á það.

Satt er það, Händel samdi Messías á leifturhraða. Hann settist við skriftir 22. ágúst 1741 og fullgerði handritið á 24 dögum. Slíkum afköstum hefði hann tæpast náð nema vegna þess að hann notaði óspart hugmyndir úr eldri verkum sínum í hið nýja.

Frumflutningurinn fór fram í nývígðum tónleikasal, New Music Hall við Fishamble Street í Dyflinni, 13. apríl 1742. Händel hafði þegið boð um að halda þar röð tónleika enda var ópera í Lundúnum á fallanda fæti og fátt þar að iðja sem sakir stóðu. Messías var því frá upphafi hugsað sem konsertverk en ekki til flutnings í kirkju þótt nú sé það flutt jöfnum höndum innan kirkjuveggja og utan þeirra. Händel átti raunar sjálfur þátt í að koma kirkjuhefðinni á legg. Frá og með árinu 1750 stýrði hann árlega flutningi Messíasar í góðgerðarskyni og þeir tónleikar fóru fram í kapellu Foundling Hospital sem var munaðarleysingjahæli Lundúnaborgar. Þannig safnaðist talsvert fé enda hafði enski tónlistarskríbentinn Charles Burney þetta um verkið að segja nokkrum áratugum síðar: „Meira en nokkurt annað tónverk í þessu eða nokkru öðru landi hefur það fætt hungraða, klætt allsnakta, fóstrað munaðarlausa og gert vellauðuga þá framkvæmdastjóra sem standa að óratoríuflutningi.“