EN

G. F. Händel: Lagartónlist, svítur nr. 2 og 3

Georg Friederich Händel (1685–1759) samdi helst óperur og óratóríur um ævina, en tiltölulega fá verk fyrir hljómsveit eingöngu. Þó eru þau tvö, Lagar- og Flugeldatónlistin, meðal frægustu verka hans og það með réttu.

            Lagartónlistina eða „Water Musick“ samdi Händel fyrir konunglegt tilefni. Miðvikudaginn 17. júlí 1717 steig Georg I. Bretakonungur ásamt tilheyrandi fylgdarliði um borð í báta við Whitehall og sigldi upp Thames-ána til Chelsea, þar sem hópurinn snæddi kvöldverð og skemmti sér fram á nótt; konungur var kominn heim í Jakobshöllina klukkan hálf fimm um morguninn. Allt kvöldið var leikin tónlist Händels, og dagblaðið Daily Courant sagði svo frá atburðinum: „Eitt skipið var notað fyrir tónlistina, og þar voru 50 hljóðfæri af öllum gerðum sem léku fínustu sinfóníur, samdar sérstaklega fyrir tilefnið af hr. Hendel [svo], sem féllu hans hátign svo vel í geð að hann óskaði eftir að þær væru leiknar alls þrisvar sinnum.“

            Händel gaf Lagartónlistina ekki út á nótum en ekki leið á löngu þar til afrit af verkinu voru farin að ganga manna á milli. Stakir kaflar voru til dæmis leiknir í Stationers´ Hall í febrúar 1722 og heyrðust líka í leikhúsum borgarinnar milli þátta í leikverkum. Smám saman fór að tíðkast að raða þáttunum saman í svítur eftir tóntegund, D-dúr, F-dúr og G-dúr. Tónlistin er auðvitað tignarleg eins og tilefnið gefur til kynna, en Händel bryddaði líka upp á nýjungum. Til dæmis höfðu frönsk horn aldrei fyrr verið notuð í ensku tónverki svo vitað sé, en þau áttu auðvitað prýðilega við þegar spilað var utandyra.